Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þráttað um Fasteign í bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 27. júní 2012 kl. 16:13

Þráttað um Fasteign í bæjarstjórn Reykjanesbæjar

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram bókun á síðasta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ að fá óháðan sérfræðing til að meta samningsdrög þau sem liggja fyrir á milli Eignarhaldsfélagsins Fasteignar og Reykjanesbæjar. Sjálfstæðismenn sem skipa meirihluta bæjarstjórnar svöruðu með annarri bókun þar sem því er alfarið hafnað og því mótmælt að fjármálasérfræðingur Capacent sem hafi unnið úttekt sé ekki óháður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um þetta var þráttað áður en bæjarstjórn fór í sumarfrí í síðustu viku.
Í bókun Samfylkingarinnar segir m.a.: „Bæjarstjórn samþykkir í samræmi við 66. grein sveitarstjórnarlaga um miklar fjárfestingar og skuldbindingar sveitarfélaga - að fá óháðan sérfræðing til að meta samingsdrög þau sem liggja fyrir á milli eignaærhaldsfélagsins Fasteignar og Reykjanesbæjar.
Bæjarráð sameinist um óháðan sérfræðing, sem ekki hefur áður komið að málefnum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, og feli honum að gera útttekt á samningsdrögum þeim er fyrir liggja og meta fjárhagslegar skuldbindingar bæjarins sem samninsdrögunum sem fylgja. Niðurstöðurnar skulu lagðar fram og kynntar fyrir bæjarstjórn.

Auk þess skal í anda lýðræðislegrar og vandaðrar stjórnsýslu halda borgarafund um málið í samræmi við 76. og 77. grein bæjarþykktar um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

Borgarafundinn skal halda áður en kemur til endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar á samningi Reykjanesbæjar við Eignarhaldsfélagið Fasteign. Ljóst er að afdrif Eignarhaldsfélagsins Fasteignar mun hafa áhrif á fjárhag bæjarins til framtíðar og því eðlilegt að íbúar bæjarins verði upplýstir að fullu um málið og gefinn vettvangur og tækifæri til að tjá skoðun sína.

Í bókun Sjálfstæðismanna segir: Í samræmi við 66. grein sveitarstjórnarlaga fengu sveitarfélögin sem eru aðilar að Eignarhaldsfélaginu Fasteign (EFF), Reykjanesbær þar með talin, sérstaka óháða úttekt á heildaráhrifum breyttra leigusamninga EFF. Megin niðurstaða þeirrar úttektar var kynnt á fundi með fulltrúum allra eigenda félagsins. Sérstaklega var vel mætt á þann fund af hálfu Reykjanesbæjar þar sem fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn Reykjanesbæjar sátu fundinn, þ.á.m. fulltrúi Samfylkingar.

Í framhaldi af fundinum var lögð fram skýr greinargerð í bæjarráði Reykjanesbæjar og bæjarstjórn þar sem áhrif breyttra leigusamninga fyrir Reykjanesbæ eru tíunduð, bæði á rekstur og efnahagsreikning Reykjanesbæjar. Skilyrðum 66. greinar hefur því nú þegar verið fullnægt.

Þá er því alfarið hafnað að þótt leitað hafi verið til fjármálasérfræðings hjá Capacent sem áður hefur unnið góð gögn fyrir sveitarfélögin í EFF, þá sé hann á einhvern hátt ótækur til framangreindrar vinnu. Sú þekking sem hann hefur aflað sér áður á málefnum EFF gerir hann á engan hátt háðan félaginu eins og tillaga Samfylkingarinnar gefur í skyn.

Áður en kemur til frágangs á nýjum leigusamningum verða áhrif nýrra leigusamninga aftur reiknuð út af hálfu óháðs sérfræðings í samstarfi við endurskoðanda Reykjanesbæjar. Gert er ráð fyrir að útreikningurinn verði þá sundurliðaður fyrir hvern leigusamning fyrir sig ásamt samanlögðum áhrifum þeirra allra.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja sjálfsagt að halda kynningarfund fyrir íbúa um málið þegar frágangur þess liggur sem gert er ráð fyrir að verði síðsumars eða í haustbyrjun.