Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þotur Varnarliðsins ekki á förum í bili
Fimmtudagur 14. ágúst 2003 kl. 10:52

Þotur Varnarliðsins ekki á förum í bili

Condoleezza Rice, þjóðaröryggisráðgjafi George W. Bush Bandaríkjaforseta, skýrði Davíð Oddssyni forsætisráðherra frá því í gær að engin fyrirmæli væru lengur í gildi um að F-15-þotur varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli skyldu kallaðar burt. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um framtíð þotnanna en Bandaríkjastjórn hyggst skoða málið í tengslum við heildarendurskoðun á herafla sínum í Evrópu.
Davíð Oddsson sagði í samtali við Morgunblaðið að Rice hefði hringt í sig og sagt að hún hefði þá um morguninn rætt við Bandaríkjaforseta á búgarði hans í Crawford í Texas um stöðu varnarmála hér á landi og þær umræður sem átt hefðu sér stað milli þjóðanna. Hugmynd Bush að lausn
"Hún tjáði mér að Bush Bandaríkjaforseti legði til að það yrði breytt um kúrs í málinu og ekki fjallað lengur einangrað um Ísland einvörðungu heldur varnarmálin skoðuð í víðara samhengi og í tengslum við þá heildarendurskoðun á herafla Bandaríkjanna, ekki síst í Evrópu, sem nú á sér stað. Sú endurskoðun myndi taka allmarga mánuði og í framhaldinu væri hægt að ræða um Ísland. Engin fyrirmæli væru lengur í gildi um að þoturnar færu. Á hinn bóginn er ekki hægt að segja, og ég legg áherslu á það, að Bandaríkin hafi endanlega fallið frá því að þoturnar kunni einhvern tímann að fara. En það verður ekki á næstunni,“ segir Davíð Oddsson í samtali við Morgunblaðið.
Forsætisráðherra sagði þetta afar mikilvægt og það væri gjörbreyting á stöðunni, sem þarna væri komin upp. "Ég sagði að við værum afar þakklát forseta Bandaríkjanna fyrir að taka þessa afstöðu og að hafa leitt málið í þennan farveg. Bað ég hana um að skila þakklæti til forsetans. Hún sagði forsetann meta íslensk yfirvöld mikils sem og varnarsamninginn og hafa sett sig vel inn í þessi mál. Þetta hefði verið hans hugmynd að lausn. Í framhaldinu hringdi Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og tilkynnti honum formlega að búið væri að afturkalla að þoturnar færu."
Davíð sagðist undirstrika að þótt þetta væri ekki endir málsins væri þetta gríðarlega þýðingarmikil niðurstaða og sýndi að Bandaríkin mætu það góða samstarf sem verið hefði á milli ríkjanna að undanförnu og vildu skoða málið í ljósi sameiginlegra hagsmuna þjóðanna.
"Þetta er afar þýðingarmikið. Málið er komið í mjög farsælan farveg og við erum ekki undir þeirri pressu sem við höfum verið síðan 2. maí [er sendiherra Bandaríkjanna tilkynnti íslenskum stjórnvöldum að þoturnar færu]. Það eru afskipti forsetans sjálfs, vinsemd í garð okkar og góð samskipti sem við höfum átt á undanförnum misserum sem gera að verkum að skipt hefur verið um stefnu. Við erum afar ánægð."
Á meðan heildarendurskoðun Bandaríkjanna á heraflanum stendur yfir segir Davíð að ekki verði sama áherslan á málefni Íslendinga. Þau mál verði ekki rædd sérstaklega en þó verði áfram samráð milli þjóðanna um kosti og möguleika.
"Ég er ekki að segja að endanlega hafi verið fallið frá því að F-15-þoturnar muni fara en það verður ekki í bráð. Þetta er mikill léttir og mikill léttir á þeirri pressu sem verið hefur. Umræðurnar geta nú farið fram með eðlilegum hætti. Ég tel að Bandaríkjaforseti hafi svarað mínu bréfi með mjög jákvæðum hætti og hann á miklar þakkir skyldar," sagði Davíð.

Málið komið í eðlilegan farveg
Halldór Ásgrímsson segist hafa átt samtal við Colin Powell síðdegis í gær. "Hann tilkynnti mér að það hefði verið ákveðið að draga til baka fyrirætlanir um að flytja þoturnar á brott. Við það skapaðist svigrúm til að endurmeta málið í ljósi þeirra breytinga sem ættu sér stað núna í Evrópu og innan NATO. Það ætti að gefa okkur nægilegan tíma til að skoða málið í rólegheitum. Spurður um tíma sagði Powell að við værum að tala um einhverja mánuði en ekki daga. Þetta yrði ekki aðkallandi mál. Við erum afskaplega ánægðir með þessa framvindu. Ég tel að málið hafi fengið mjög góða umfjöllun í Washington. Þótt að samtal sem ég átti við Powell 6. maí þar sem málinu var þá frestað hafi verið ágætt fór það síðan aftur í svipaðan farveg. Nú virðist málið vera komið í farveg sem við getum afskaplega vel við unað. Viðræður milli þjóðanna um framhaldið hafa ekki verið ákveðnar. Það mun líða einhver tími þangað til það liggur fyrir. Málið er komið á ný í eðlilegan farveg," sagði Halldór í frétt Morgunblaðsins.

frétt Morgunblaðsins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024