Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þorvaldur Halldórsson frá Vörum látinn
Föstudagur 28. nóvember 2008 kl. 00:20

Þorvaldur Halldórsson frá Vörum látinn

Þorvaldur Halldórsson útgerðarmaður frá Vörum í Garði er látinn, 88 ára að aldri. Þorvaldur verður jarðsunginn frá Útskálakirkju næstkomandi laugardag, 29. nóvember kl.14.00. Einnig verður aðstaða í Íþróttamiðstöðinni til að fylgjast með útförinni.
 
Foreldrar hans voru Halldór Þorsteinsson, f. 22.2. 1887, d. 3.1. 1980, skipstjóri og útvegsbóndi frá Melbæ í Leiru og Kristjana Pálína Kristjánsdóttir, f. 2.11. 1885, d. 1.8. 1975, húsfreyja frá Hellukoti á Vatnsleysuströnd. 
 
Þorvaldur ólst upp í foreldrahúsum í Vörum, Garði. Lífsbaráttan var hörð á þessum árum og strax og aldur og geta leyfðu vann hann ásamt systkinum sínum við útgerð föður síns sem gerði út og átti bátinn Gunnar Hámundarson í Garði. Þorvaldur fór til sjós 14 ára gamall með Gísla bróður sínum. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum árið 1941. Eftir prófið var hann landformaður og síðar stýrimaður hjá Gísla bróður sínum. Eftir að Gísli hætti tók hann sjálfur við skipstjórn á Gunnari Hámundarsyni árið 1948 og hóf jafnframt útgerð með föður sínum og síðar einnig Þorsteini bróður sínum. Þorvaldur var mikill gæfu- og aflamaður til sjós. Eftir að hann hætti á sjó árið 1988 hélt hann áfram útgerð Gunnars Hámundarsonar með sonum sínum.
 
Eftir að Þorvaldur hætti til sjós fór hann að sinna áhugamálum sínum betur. Hann var mikill áhugamaður um skógrækt sem hann stundaði bæði heima hjá sér og í sumarbústaðnum. Hann hafði gaman af því að ferðast bæði innanlands og utan. Hann hafði mikinn áhuga á íþróttum, knattspyrnu, handbolta og Brids en þá sérstaklega þeim sem börn og barnabörn hans stunduðu. Hann var mikill stuðningsmaður Knattspyrnufélagsins Víðis og var meðal stofnenda félagsins árið 1936. Hann var mikill fjölskyldumaður sem vildi allt fyrir sína nánustu gera og höfðingi heim að sækja. Þorvaldur giftist 25. desember 1955 eftirlifandi eiginkonu sinni Ingibjörgu Jóhannsdóttur, f., 24.9. 1925 og bjuggu þau allan sinn búskap í Vörum, Garði. Þau eignuðust 5 börn, 12 barnabörn og 4 barnabarnabörn.
 
Þorvaldur verður jarðsunginn frá Útskálakirkju næstkomandi laugardag, 29. nóvember kl.14.00. Einnig verður aðstaða í Íþróttamiðstöðinni til að fylgjast með útförinni.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024