Þorsteinn sveitarstjóri Skútustaðahrepps
Þorsteinn Gunnarsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri Skútustaðahrepps. Alls bárust 23 umsóknir um starfið. Ráðningin var gerð í samstarfi við Capacent sem hafði umsjón með úrvinnslu umsókna. Það er fréttavefurinn 641.is sem greinir frá þessu.
Þorsteinn er 50 ára sviðsstjóri og hefur í tæp 9 ár starfað hjá Grindavíkurbæ, fyrst sem upplýsinga- og þróunarfulltrúi og svo sem sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs og hefur því víðtæka reynslu innan stjórnsýslunnar. Hann starfaði um árabil í fjölmiðlum, m.a. á Stöð 2. Hann er með meistarapróf í verkefnisstjórnun (MPM) og diplóma í opinberri stjórnsýslu og lærði fjölmiðlafræði í Svíþjóð á sínum tíma.
Þorsteinn hefur setið í fjölmörgum nefndum og ráðum, m.a. í stjórn Ferðamálasamtaka Reykjaness og Reykjanes Geopark. Eiginkona hans er Rósa Signý Baldursdóttir grunnskólakennari og eiga þau þrjú börn.