Þorsteinn Eggertsson sýnir á Ránni
Listamaðurinn Þorsteinn Eggertsson er flestum kunnugur fyrir hina óteljandi dægurlagatexta sem þjóðin hefur raulað í áratugi, en hann er einnig afkastamikill málari.
Á Ljósanótt verður Þorsteinn með sýningu á Ránni þar sem má sjá nokkur verka hans, en þau eru flest máluð með akrýllitum. „Þetta eru fígúratívar myndir, en ég hef í seinni tíð verið að leika mér svolítið með ljós,“ sagði Þorsteinn í samtali við Víkurfréttir.
Þorsteinn hefur ekki haldið sýningu hér á heimaslóðum lengi en verk hans hafa þó farið víða. „Ég hef verið að sýna erlendis og var meðal annars með sýningu sem fór um allan heim á sjö árum, meðal annars til Taívan.“
Sýningin verður opin á föstudag frá 13 til 18 og á laugardag frá 13-22 á Ránni, eins og fyrr sagði.