Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þorskkvótaskerðingin: Fjármálaráðherra telur ekki ástæðu til mótvægisaðgerða í Grindavík
Fimmtudagur 20. september 2007 kl. 15:33

Þorskkvótaskerðingin: Fjármálaráðherra telur ekki ástæðu til mótvægisaðgerða í Grindavík

Eins og fram hefur komið eru bæjaryfirvöld í Grindavík ósátt við að hafa verið hundsuð í mótvægisaðgerðum vegna þorskkvótaskerðingarinnar.

 

Bæjarráð Grindavíkurbæjar fór á mánudag ásamt Ólafi Erni Ólafssyni, bæjarstjóra, til fundar við Árna Mathiesen, fjármálaráðherra og fyrsta þingmann Suðurkjördæmis, þar sem þessi mál voru til umræðu.


„Það kom nú ekki mikið fram á þessum fundi,“ sagði Ólafur í samtali við Víkurfréttir. „Við báðum hann um skýringar á þessari hundsun, en hann svaraði því til að við værum svo nálægt Höfuðborgarsvæðinu að þeir sem misstu vinnu í bænum gætu leitað inn eftir. Það finnst okkur skrítið vegna þess að hvergi á landinu er atvinnuleysi meira en einmitt hér á Suðurnesjum. Svo er líka spurning hvort fiskvinnslufólk eða sjómenn hafi efni á því að keyra á milli á hverjum degi.“

Ólafur bætti því við að lokum að Grindvíkingar væru ekki búnir að leggja árar í bát því, enn ætti eftir að taka málið fyrir á Alþingi. Þangað til ætluðu þeir sér að halda áfram að vekja athygli á málstað sínum.

Loftmynd/Oddgeir Karlsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024