Þorskar á þurru landi
Þrátt fyrir sólina vantaði sumarylinn og Sæmi „rafvirki“ var nokkuð svekktur með fiskirí dagsins. „Þetta er fyrsti róðurinn minn í sumar og þá fæ ég bara brælu“, sagði Sæmi og lyfti vænum fiski upp úr kari sem stóð við hlið hans á bryggjunni. Það var nú ekki laust við að hann horfði með stolti á fiskinn sinn þrátt fyrir brælu og „svekkelsi“. „Ætli ég hafi ekki fengið um 300 kg. í dag. Maður vill nú helst vera í kringum tonnið þar sem Máni er dagabátur. Þá má ég bara róa 23 daga á ári og vil því helst nýta þá vel“, segir Sæmi. Hvar náðir þú í þessi 300 kg.? „Ég fór í dag út á Syðra-Hraun en ég fer líka oft á Garðsjóinn eða suður með ströndinni, hjá Sandvík og þar“, segir Sæmi og heldur áfram að vigta afla dagsins.Hörður Óskarsson er einnig alræmdur sjóhundur og gerir út Vin GK. Hörður vill nú ekki meina að „Vinurinn“ sé á stærð við vaskafat, og segir að þetta sé nú hvorki meira né minna en fimm tonna bátur. „Ég er búinn að fara í átta róðra síðan í lok apríl og hef verið að fá um 1,3 tonn í hverjum túr“, segir Hörður rogginn. Þar sem Sæmi er að veiða um tonni minna en Hörður í túr, er kannski kominn tími til að Sæmi elti aflaklóna á veiðislóð hans. Hörður er ekkert feiminn við að segja hvert hann fer til veiða. „Ég fer nú yfirleitt norður á Haus eða suður á Sker“, segir Hörður „stillti“ og röltir niður á flotbryggju þar sem fleiri trillur eru að leggja að.