Thorsil veitt starfsleyfi
- Ný ákvæði frá fyrra starfsleyfi um lyktarmengun
Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju Thorsil ehf. í Helguvík. Í tilkynningu frá stofnuninni segir að nokkur ákvæði leyfisins hafi verið endurskoðuð og þarf fyrirtækið að uppfylla ný ákvæði til að sporna gegn lyktarmengun. Athugasemdir við starfsleyfið bárust frá 30 einstaklingum. Nokkrir þeirra vöktu athygli Umhverfisstofnunar á undirskriftasöfnun þar sem farið var fram á að stofnunin gefi ekki út starfsleyfi fyrir Thorsil að svo komnu máli. Um 3500 manns skrifuðu nöfn sín á undirskriftalistann.
Þann 11. september síðastliðinn veitti Umhverfisstofnun Thorsil starfsleyfi en það var fellt úr gildi af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála því frestur til að senda inn athugasemdir hafði verið of stuttur miðað við ákvæði reglugerðar. Ný auglýsing starfsleyfistillögu fór fram á tímabilinu 3. nóvember 2016 til 9. janúar 2017. Á sama tíma var fjallað um mengun og lykt frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík í fjölmiðlum og voru margir íbúar í Reykjanesbæ ósáttir við ítrekuð óhöpp við þann rekstur.
Nokkrum ákvæðum fyrra starfsleyfis Thorsil var breytt til að koma til móts við ábendingar almennings. Til að mynda voru ekki ákvæði um lykt í starfsleyfinu sem fellt var úr gildi. Í tilkynningu Umhverfisstofnunar segir að ekki hafi verið nein umræða um lykt frá starfseminni í mati á umhverfisáhrifum eða í umsóknargögnum. Fyrirfram var ekki talin hætta á slíkum vandamálum.
Starfsleyfið sem nú hefur verið veitt Thorsil mun gilda til 11. september 2031.