Þórleifur má heita Ugluspegill
- þegar hann hefur greitt 6600 krónur til Þjóðskrár.
Þórleifur Ásgeirsson hefur fengið í gegn breytingu á nafni sínu í Þjóðskrá. Hann má í dag heita Þórleifur Ugluspegill Ásgeirsson, svo framarlega sem hann greiðir 6600 krónur í afgreiðslu Þjóðskrár eða leggur inn á reikning stofnunarinnar.
„Mannanafnanefnd hefur samþykkt beiðni þína um nafnið Ugluspegill. Gjald fyrir nafnbreytingu er kr. 6.600, hægt að greiða í afgreiðslu Þjóðskrár eða leggja inn á reikning stofnunarinnar. [...] Eftir að gjald hefur verið greitt verður nafn þitt skráð Þórleifur Ugluspegill Ásgeirsson í þjóðskrá,“ segir í pósti sem Þórleifi barst í gær.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Þórleifur að nafnið Ugluspegill sé uppnefni sem hann fékk hjá Stefáni Benediktssyni kennara í Álftamýrarskóla og hefur notað allar götur síðan.
Þórleifur Ugluspegill sótti um breytinguna til Mannanafnanefndar fyrir tveimur árum síðan en fór að vinna betur í umsókninni fyrir um ári síðan með þeim árangri sem nú hefur náðst.