Þórkatla hefur tekið á móti nærri 400 eignum í Grindavík
Nú hafa 900 Grindvíkingar sótt um sölu á eignum til Fasteignafélagsins Þórkötlu og gengið hefur verið frá nærri 740 þinglýstum kaupsamningum eða um 82% þeirra sem sótt hafa um. Fjárfesting félagsins í þessum eignum er um 57 milljarðar króna, en þar af eru yfirteknar skuldir um 18 milljarðar og kaupsamningsgreiðslur um 36,3 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórkötlu.
Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að heildarfjöldi umsækjenda verði allt að 950 og að heildarfjárfesting félagsins verði allt að 75 milljarðar króna. Félagið hóf fyrir nokkur að taka við eignum frá seljendum og hefur félagið tekið á móti nærri 400 eignum í Grindavík. Tekið verður á móti nærri 300 eignum í júlí og ágúst.
Kaflaskil urðu í verkefninu í vikunni þegar félagið hóf ferlið við endanlegan frágang kaupa við fyrstu seljendurna með lögskilauppgjöri, afsali og afsalsgreiðslum. Eins og við aðra framkvæmd þessara kaupa er frágangur lögskilauppgjörs og afsals með rafrænum hætti, þ.e. rafrænum undirskriftum og rafrænni þinglýsingu. Markvisst er nú unnið í þeim umsóknum þar sem ýmsar hindranir og frávik hafa komið upp.
Þetta eru oft nokkuð flókin mál sem krefjast ítarlegri skoðunar, svo sem vegna undanþágu um lögheimili, dánarbúa, vanda við afléttingu veða eða skilgreinds byggingarstigs. Verið er að leita lausna fyrir búseturéttarhafa en útfærsla þeirra mála hefur reynst flókin. Áfram verður unnið að því finna farsæla lausn.
„Heilt yfir gengur þetta vel hjá okkur. Fyrirkomulag skilafunda með eigendum hefur komið vel út og frágangur þeirra á eignunum hefur yfirleitt verið til fyrirmyndar. Nú er komin af stað vinna við lögskilauppgjör og afsöl og hún fer vel af stað,” segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins Þórkötlu í tilkynningunni. „Stóra verkefnið framundan er svo utanumhald og rekstur eignanna í Grindavík og við erum að skoða hvernig best sé að standa að því .“