Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þorbjörn segir upp öllu landverkafólki
Fimmtudagur 20. júní 2024 kl. 14:30

Þorbjörn segir upp öllu landverkafólki

Nýr ísfisktogari, Hulda Björnsdóttir, kemur í júlí.

Fyrirtækið Þorbjörn á sér um 70 ára sögu útgerðar og vinnslu í Grindavík. Þorbjörn hefur eins og önnur grindvísk sjávarútvegsfyrirtæki, reynt að halda rekstrinum gangandi en eftir seinasta eldgos sem leiddi af sér rafmagnsleysi í viku, var ákveðið að hætta landvinnslu í Grindavík.

Stærstur hluti reksturs Þorbjarnar er í gegnum frystitogarana Tómas Þorvaldsson og Hrafn Sveinbjarnarson og því var ekki flókin ákvörðun að hætta landvinnslunni í bili segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við tókum þessa ákvörðun út frá okkar rekstri, við reyndum að vinna með ástandinu í vetur og sjáum ekki eftir þeim tilraunum en þetta er einfaldlega ekki að ganga upp og því munum við ekkert gera fyrr en ástandið lagast. Að sjálfsögðu viljum við sjá bæinn opnast en á meðan engin þjónusta er í bænum er erfitt fyrir starfsfólkið að búa hér. Það er samt ekki aðalástæðan, þetta hafa verið of miklar truflanir þegar atburður fer af stað, núna seinast fór rafmagnið í nokkra daga og fyrr í vetur var hitaveitan biluð í nokkrar vikur. Stærsti hluti tekna okkar kemur frá frystitogurunum okkar og nú munu hin skipin einfaldlega landa afla sínum á markað og þannig fáum við hæsta mögulega verð fyrir fiskinn. Við teljum ekkert vit í að starta vinnslunni annars staðar, við erum með frábæran tækjakost í húsakynnum okkar í Grindavík og bíðum bara eftir að náttúran fari að hægja á sér og lífið komist í eitthvað sem er nálægt eðlilegu ástandi, þá munum við að sjálfsögðu keyra allt af stað á ný.“

Gunnar segir að von sé á nýju skipi, ísfisktogaranum Huldu Björnsdóttur, en komu skipsins hefur seinkað.

„Við eigum von á nýja skipinu í júlí en það er ekkert stress á að bæta því flotta skipi í flotann. Skipið mun landa afla sínum á markað eins og hin tvö skipin en svo auðvitað vonumst við eftir að við getum landað sem mest í Grindavík og munum ekki láta okkar eftir liggja í að byggja fallega bæinn okkar upp á ný,“ sagði Gunnar að lokum.