Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þorbjörn rís og staðan gæti þróast í frekari innskotavirkni eða eldgos
VF-mynd: Jón Steinar Sæmundsson
Mánudagur 16. maí 2022 kl. 14:31

Þorbjörn rís og staðan gæti þróast í frekari innskotavirkni eða eldgos

Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Víkurfréttir að GPS stöðin á Þorbirni hafi risið um 20-30 mm frá mánaðamótum og er enn á uppleið. Benedikt segir að landris eða þennsla með miðju rétt norð-vestan við Þorbjörn hafi hafist um mánaðamótin.

„Því svipar mjög til þess sem mældist í byrjun árs 2020. Stærsta lóðrétta færslan sést á GPS stöð sem er ofan á Þorbirni en á öðrum stöðvum eru láréttar færslur meira áberandi. GPS stöðin á Þorbirni hefur núna risið um 20-30 mm og er enn á uppleið,“ segir Benedikt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hann segir líkön benda til að þetta sé líklega kvika að safnast fyrir á um 4-5 km dýpi þar sem lögun og umfang þess er mjög sambærilegt og í upphafi árs 2020.

„Það er ekki nokkur leið að spá fyrir um framhaldið en þetta gæti þróast svipað eins og 2020 en líka þróast í frekari innskotavirkni eða eldgos. Það er þó ekkert að benda til þess á þessari stundu,“ segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofunni.

Jarðskjálftavirkni heldur áfram á Reykjanesskaga og hafa verið yfir 3000 skjálftar á svæðinu við Eldvörp á Reykjanesi undanfarna viku. Síðan í gær, 15. maí, hafa mælst níu skjálftar yfir 3 af stærð og tveir yfir 4 af stærð. Stærsti skjálftinn var 4,3 af stærð og varð 15. maí klukkan 17:38. Talið er að mesta skjálftavirknin sé á 4-6 km dýpi.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að samkvæmt GPS mælaneti á Reykjanesskaganum og InSAR gervihnattamyndum eru færslur á yfirborði jarðar sem sýna þenslumerki sem bendir til kvikusöfnunar vestur af Þorbirni. Samkvæmt frumniðurstöðum er þetta á 4-5 km dýpi.

Í ljósi kvikusöfnunar og þenslumerkja á Reykjanesi hefur VONA fluglitakóðinn verið færður frá grænu yfir á gulan.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hafa lýst yfir óvissustigi Almannavarna frá og með 15. maí.