Þorbjörn og Þórkatla eru Suðurnesjamenn ársins 2021
Víkurfréttir hafa valið félaga í Björgunarsveitinni Þorbirni og Slysavarnadeildinni Þórkötlu í Grindavík Suðurnesjamenn ársins 2021 fyrir fórnfúst starf í Grindavík í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli og fyrir þá vinnu sem fram fór á meðan gaus. Mikið hefur mætt á björgunarsveitarfólki í Grindavík allt síðasta ár og í raun lengur, því atburðarásin hófst í raun í lok janúar 2020 þegar land tók að rísa vestan við fjallið Þorbjörn, skammt frá byggðinni í Grindavík. Þá var lýst yfir óvissustigi Almannavarna. Björgunarsveitin Þorbjörn var þegar virkjuð og í hönd fór fimmtán mánaða vinna í aðdraganda eldgoss. Frá því eldurinn braust upp á yfirborðið hefur vinnan svo margfaldast hjá björgunarsveitarfólkinu í Grindavík og bakvarðasveit þeirra, Slysavarnadeildinni Þórkötlu. Í miðopnu Víkurfrétta eru viðtöl við þau Boga Adolfsson, Otta Rafn Sigmarsson og Guðrúnu Kristínu Einarsdóttur. Þau eru jafnframt í viðtölum í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á fimmtudagskvöld á Hringbraut og vf.is.
Fjölmargar tilnefningar bárust um einstaklinga sem ættu nafnbótina skilið. Þau sem fengu flestar tilnefningar voru Sveinbjörg Ólafsdóttir og hennar samstarfsfólk á Heilbrigðisstofun Suðurnesja en Sveinbjörg var í framlínunni þegar kom að bólusetningu fyrir Covid-19. Sveindís Jane Jónsdóttir, knattspyrnukona, fékk einnig tilnefningar, sem og Elsa Pálsdóttir, kraftlyftingakona. Önnur lyftingakona, Katla Ketilsdóttir, komst einnig á lista, sem og Sóley Ingibergsdóttir. Hún barðist við krabbamein á árinu og sagði sögu sína síðasta haust. Skólastjórnendur á Suðurnesjum fengu einnig tilnefningar, sem og þær Jóhanna Sigurbjörnsdóttir og Svala Ragnheiðardóttir sem starfa fyrir Frú Ragnheiði. Fjölmargar aðrar tilnefningar bárust en flestar voru þær til björgunar- og slysavarnafólks í Grindavík.