Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þorbjörn Fiskanes og Landsbjörg byggja upp öryggiskerfi
Þriðjudagur 5. október 2004 kl. 17:09

Þorbjörn Fiskanes og Landsbjörg byggja upp öryggiskerfi

Undanfarin ár hafa áhafnir nokkurra skipa Þorbjarnar Fiskaness hf. tekið þátt í að byggja upp og reyna öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip í samvinnu við Slysavarnarfélagið Landsbjörg.

Síðustu vikur hafa allar áhafnir Þorbjarnar Fiskaness tekið þátt í verkefninu og vinna nú eftir þessu öryggisstjórnunarkerfi. „Kerfið felst í því að allt skipið er yfirfarið, frá brú og niður í lest ásamt öllum öðrum almennum búnaði sem kann að finnast um borð. Með þessu er stuðlað að því að auka árvekni og öryggisvitund áhafnarmeðlima fiskiskipanna,“ sagði Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar Fiskanes í samtali við Víkurfréttir í dag.

Hlutir sem undir venjulegum kringumstæðum eru öruggir og hættulausir geta stundum snúist í andhverfu sína um borð í skipi í miklu hafróti. Þess vegna þarf að huga vel að öllum öryggisatriðum til að gera alla siglingu og sjómennsku öruggari. Skipulagt eftirlit með öryggisatriðum tryggir tíðni og stöðugt eftirlit með öllum öryggisþáttum. Öryggisstjórnunarkerfi á að skilgreina nákvæmlega hvaða ábyrgð hver og einn ber um borð í hverju skipi. Þannig eykur kerfið árvekni sjómanna, bæði þeirra sem sinna eftirliti og þeirra sem heyra undir eftirlitið.

Slysin gera ekki boð á undan sér. Svokölluð „næstum því slys“ eru oftast fyrirboði um að slys geti orðið við ákveðnar aðstæður. Því er nauðsynlegt að skrá niður öll „næstum því slys“ og bregðast til varnar. Í skipulagi öryggisstjórnunarkerfis er auðvelt að gera ráð fyrir skráningu á „næstum því slysum“ og leita þannig úrbóta og lausna til þess að forða frá slysum.

VF-mynd/ úr safni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024