Þór mátar Grindavíkurhöfn
Varðskipið Þór verður í Grindavík fram á kvöld en skipið kom til hafnar í Grindavík á ellefta tímanum í morgun. Heimsókn varðskips til Grindavíkur markar tímamót, því þetta er í fyrsta skipti sem varðskip kemur til hafnar í Grindavík.
Tilgangur heimsóknarinnar er að máta skipið við hafnarmannvirkin í Grindavík. Þar hefur Þór verið úthlutað pláss við Miðgarð. Þar eru HS Veitur jafnframt að koma fyrir búnaði þannig að mögulegt sé að nota varðskipið til að framleiða rafmagn fyrir Grindavík, verði bærinn án rafmagns til lengri tíma, t.d. vegna náttúruhamfara. Eins og kunnugt er af fréttum er óvissustig í gildi fyrir Grindavík og nágrenni vegna landriss vestan við Þorbjörn. Landrisið er talið vera vegna kvikuinnskots á 3-5 km. dýpi.
Vel gekk að koma skipinu til hafnar og snúa því í höfninni en Þór var bakkað að Miðgarði þar sem hann verður fram á kvöld.
Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík og Sigurður Arnar Kristmundsson hafnarstjóri Grindavíkurhafnar ræða við Pál Geirdal skipherra á Þór í Grindavík í morgun.
Þór kemur til hafnar í Grindavík. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson