Þór gnæfir yfir Innri-Njarðvík
Góður gestur er kominn til Reykjanesbæjar í tilefni Ljósanætur. Er þar um að ræða þrumuguðinn Þór sem ekið hefur vagni sínum um himinhvolfin í árþúsund en hefur nú tyllt sér niður á annan topp litla fjallsins í Innri Njarðvík, skammt frá Víkingaheimum. Fer einmitt vel á því að hann hafi valið sér þennan stað því erlendir ferðamenn spyrja gjarnan hvort hæðin sé e.t.v. forn víkinga grafreitur.
Listamaðurinn Haukur Halldórsson lánaði verkið til Reykjanesbæjar og er það úr ryðfríu, spegilsléttu stáli sem tekur til sín öll litbrigði veðrahvolfanna. Ekki er vitað hversu lengi Þór mun staldra við og eru landsmenn því hvattir til að heilsa upp á hann á meðan tími vinnst til.
VF-Mynd Eyþór Sæmundsson