Þjónustuver Reykjanesbæjar opnað
Nýtt Þjónustuver Reykjanesbæjar var opnað formlega nú um mánaðamótin en þar fást allar upplýsingar um starfsemi og þjónustu bæjarins. Árni Ragnarsson starfsmaður á bæjarskrifstofunum opnaði þjónustuverið formlega að viðstöddu starfsfólki og gestum en með breytingunum er verið að auka þjónustu og upplýsingagjöf til bæjarbúa.
Í þjónustuverinu fást upplýsingar um alla starfsemi og þjónustu bæjarins og þar fer meðal annars fram símsvörun, öll almenn þjónusta við viðskiptavini bæjarins og upplýsingagjöf um stöðu mála og erinda.
Í þjónustuverinu verður tekið á móti umsóknum og hægt verður að fá teikningar af fasteignum. Þjónustuverið svarar meðal annars spurningum um húsaleigubætur, gjaldskrá, hvatagreiðslur, umönnunargreiðslur, fundagerðir bæjarstjórnar og nefnda, íbúavefinn mittreykjanes.is og leiðbeinir hvernig hægt er að nálgast upplýsingar á vef bæjarins.
Þjónustuverið sér einnig um íbúaskráningar og viðtalsbókanir hjá fjölskyldu- og félagssviði. Með tilkomu þjónustuversins hefur opnunartími verið lengdur fram til kl. 16:00 alla daga nema föstudaga en þá er opið til kl. 15:00.