Þjónustuteymi fyrir Grindvíkinga tekur til starfa í dag
Alþingi hefur sett á fót framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Hún fer með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða, tryggir skilvirka samvinnu við sveitarstjórn og opinbera aðila og hefur heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar.
Framkvæmdanefndin hefur sett á fót þjónustuteymi sem á að styðja við íbúa Grindavíkur, bæði þá sem hafa lögheimili í sveitarfélaginu og þá sem hafa flutt eða stefna á að flytja lögheimili í annað sveitarfélag. Þjónustuteymið á að tryggja samþættan og markvissan stuðning við Grindvíkinga m.a. vegna skóla- og tómstundastarfs barna og ungmenna, atvinnuleitar og virkni, húsnæðismála og sálfélagslegs stuðnings. Þjónustuteymið býður upp á viðtöl til að veita upplýsingar og ráðgjöf um þau fjölbreyttu mál sem nefnd eru hér að framan ásamt því að eiga, fyrir hönd íbúa, samskipti við sveitarfélög þar sem þeir hafa komið sér fyrir. Þjónustuteymið hefur störf mánudaginn þann 3. júní n.k.
Þjónustuteymi fyrir íbúa Grindavíkurbæjar verður starfrækt í Borgartúni 33. Þar er hægt að hafa samband og bóka viðtal hjá ráðgjöfum teymisins. Nánari upplýsingar má finna á Ísland.is