Þjófur handtekinn með áhald til að brjóta bílrúður
Pólskur karlmaður var handtekinn á sunnudag fyrir innbrot í bifreið við Vatnsnesveg í Keflavík. Þar hafði maðurinn brotið hliðarrúðu í bíl og tekið úr honum seðlaveski. Sjónarvottar urðu að verknaðinum sem gátu lýst manninum sem síðan var handtekinn við Nesvelli í Reykjanesbæ. Maðurinn var með bakpoka við handtökuna og í honum fannst m.a. það sem sem stolið hafði verið úr bílnum við Vatnsnesveg. Maðurinn var einnig með oddhvasst áhald sem notað er til að brjóta bílrúður. Maðurinn viðurkenndi innbrot í bílinn.
Maðurinn sem var handtekinn er með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en var með samastað hjá samlanda sínum í Njarðvík. Lögreglan gerði húsleit þar og einnig í bifreið. Við leitina fundust ýmis verðmæti sem ekki var hægt að gera grein fyrir eins og lófatölva, GPS staðsetningartæki og fleira. Þar á meðal var gróðurhúsalampi sem fannst inni á baðherbergi og bókað er í dagbók lögreglu að þar hafi verið gerð tilraun til ræktunar, en engar plöntur voru á staðnum.
Samlandarnir voru báðir færðir til lögreglustöðvar í fyrrakvöld og voru í fangelsi og við yfirheyrslur þar til síðdegis í gær, að þeim var sleppt. Mennirnir eru báðir þekktir úr bókum lögreglunnar.
Lögreglan rannsakar mál mannanna áfram, enda passa skóför annars þeirra við för sem fundust á vettvangi annars þjófnaðar í Reykjanesbæ. Mennirnir kunna því að tengjast fleiri málum sem komið hafa upp í Reykjanesbæ á síðustu dögum.
Lögreglan hvetur fólk til að vera vakandi fyrir þjófum og ekki gera þeim auðvelt fyrir með því að hafa verðmæti á glámbekk og alls ekki að skilja verðmæti eftir í bifreiðum og skiptir þá engu máli hvort bílar eru læstir eða ekki. Í því máli sem fjallað er um hér að framan var notað sérstakt áhald til að brjóta rúðu í bifreiðinni og því geta þjófar athafnað sig á fáeinum sekúndum.