Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Mánudagur 11. ágúst 2003 kl. 13:27

Þjófnaðir og húsbrot um helgina

Þjófnaðir og húsbrot voru hlutir sem lögreglan í Keflavík þurfti að eiga við um helgina sem samkvæmt dagbók virðist hafa verið nokkuð annasöm. Meðfylgjandi eru dagbókarbrot lögreglunnar í Keflavík fyrir föstudag, laugardag og sunnudag:Föstudagur 8. ágúst 2003.
Kl. 11:06 var tilkynnt um innför í bílskúr á Borgarhrauni í Grindavík þar sem stolið var Bosch borvél og Bosch hjólsög.
Kl. 12:23 var tilkynnt um neyðarblys á lofti við Sandgerðishöfn. Við athugun á málinu með aðstoð Tilkynningaskyldunnar virðist sem blysinu hafi verið skotið uppi á landi. Ekki þarf að fjölyrða um ábyrgðarleysi þess sem skaut upp þessu blysi. Neyðarblys eru einungis ætluð til nota í neyð.
Kl. 15:15 kom þýskur ferðamaður á lögreglustöð og tilkynnti að hann hafi orðið fyrir því að tapa blárri axlartösku með stafrænni myndavél í. Hann taldi sig hafa tapað töskunni á bílastæðinu utan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vélin er af gerðinni Olympus Comidia C2100. Vélin kom í leitirnar daginn eftir.
Einn ökumaður kærður fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut. Mældur hraði var 100 km þar sem hámarkshraði er 70 km.
Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að leggja bifreiðum sínum ólöglega.
Eigendur fimm bifreiða voru kærðir fyrir vanrækslu á aðalskoðun og endurskoðun.
Einn ökumaður var kærður fyrir að hafa ekki bílbeltið spennt.
Einn ökumaður var kærður fyrir að sinna ekki stöðvunarskyldu.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka bifreið án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Ökumaðurinn var 15 ára gamall og einnig grunaður um ölvun við akstur.
Laugardagur 9. ágúst 2003.
Kl. 04:45 var tilkynnt um óboðinn gest í húsi í Njarðvík. Viðkomandi aðili hafði villst inn í húsið sökum ölvunar. Er lögreglan kom á staðinn var maðurinn sofnaður inni í barnaherbergi hússins. Hann var handtekinn og færður í fangahús lögreglunnar þar sem hann var látinn sofa úr sér áfengisvímuna. Lögreglan vill hvetja íbúa til þess að læsa bæði húsum sínum og bifreiðum.
Kl. 05:19 var tilkynnt um umferðaróhapp á Hólabraut í Keflavík. Þarna hafði bifreið verið yfirgefin án þess að setja hana í handbremsu með þeim afleiðingum að hún rann á aðra bifreið.
Kl. 09:15 var tilkynnt um þjófnað á blárri Toyota Avensis, skutbifreið, í Keflavík. Bifreiðinni hafði verið stolið sl. nótt. Eigandinn fann bifreiðina, óskemmda, rúmlega klukkustund síðar í Vallarhverfi í Keflavík. Þeir sem geta gefið upplýsingar um málið vinsamlegast hafið samband við lögreglu í síma 420-2400.
Kl. 09:26 var tilkynnt um þjófnað á grárri Mitsubishi Lancer, fólksbifreið, árgerð 1988, úr Grófinni í Keflavík. Bifreiðinni var stolið sl. nótt. Bifreiðin fannst á Vogastapa aðfaranótt sunnudagsins. Þeir sem geta gefið upplýsingar um málið vinsamlegast hafði samband við lögregluna í Keflavík í síma 420-2400.
Kl. 11:25 var tilkynnt um þjófnað á Sony ferðageislaspilara úr ólæstri bifreið á Óðinsvöllum í Keflavík.
Kl. 13:08 var tilkynnt um þjófnað á fjórum silfurgráum VW hjólkoppum undan silfurlitaðri VW Polo fólksbifreið sem var utan við bílasölu Heklu á Njarðarbraut í Njarðvík. Þjófnaðurinn átti sér stað sl. nótt.
Kl. 13:22 hafði hollenskur ríkisborgari samband og skýrði frá því að hann hafi orðið fyrir því að gleyma rauðum/grænum bakpoka á þvottaplaninu við Olís bensínstöðina á Vatnsnesvegi í Keflavík um kl. 22:00 í gærkvöldi. Pokinn var horfinn er hann fór að kanna með hann. Í bakpokanum voru ýmsir munir svo sem föt, svefnpoki, dagbók og filmur en Hollendingurinn hafði tekið margar myndir á ferð sinni um landið. Á sunnudagskvöldið um kl. 19:40 fannst síðan pokinn við gömlu sundlaugina við Framnesveg, en þá hafði vegfarandi fundið hann. Eitthvað af fötunum voru í og við pokann. Ekki er vitað hver hafi verið þarna að verki. Í ljós kom að flmur vantar í bakpokann og einnig litla bók sem eigandi pokans hafði verið að skrá í, einskonar dagbók. Þeir sem geta gefið upplýsingar um málið vinsamlegast hafði samband við lögregluna í Keflavík í síma 420-2400.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að hafa ekki öryggisbeltið spennt við aksturinn.
Einn ökumaður var kærður fyrir að stöðva ekki við stöðvunarskyldu sem er á Tjarnargötu við mót Hafnargötu í Keflavík.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka gegn rauðu ljósi.
Einn ökumaður var kærður fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut. Mældur hraði 118 km þar sem hámarkshraði er 90 km.
Sunnudagur 10. ágúst 2003
Kl. 02:19 var 18 ára ökumaður kærður fyrir hraðakstur á Grindavíkurvegi, rétt norðan við Grindavík. Mældur hraði 154 km þar sem hámarkshraði er 90 km. Þessi ungi ökumaður á von á ökuleyfissviptingu í einhvern tíma.
Kl. 02:59 var tilkynnt um innbrot í verslunina Besta, Brekkustíg 39, Njarðvík. Þarna hafði verið farið inn í verslunina en ekki er vitað hver eða hverjir voru þarna á ferð. Málið er í rannsókn.
Kl. 13:02 var tilkynnt að 11 ára stúlka hafi hlotið þungt höfuðhögg er hún datt á hlaupahjóli á göngustíg við Heiðarból í Keflavík. Stúlkan var flutt á HSS til aðhlynningar.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að leggja bifreiðum sínum ólöglega.
Einn ökumaður er grunaður um að hafa verið undir áfengisáhrifum við akstur bifreiðar sinnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024