Þjófnaðarbrotum fækkar á Suðurnesjum meðan þjófagengi fara ránshendi um höfuðuborgina
Hegningarlagabrotum fækkaði á milli ára í ágúst í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Þau voru 78 nú en 90 á síðasta ári. Umferðarlagabrotum fækkaði einnig á milli ára. Alls fékk 401 ökumaður sekt af þeim sökum í ágúst síðastliðnum samanborið við 663 í sama mánuði 2008. Ökumenn virðast því vera farnir að gæta sín betur á hraðamyndavélunum en með tilkom þeirra jókst gríðarlega fjöldi þeirra ökumanna sem voru „nappaðir" fyrir hraðakstur. Á sama tímabili fækkaði fíkniefnabrotum í umdæminu úr 20 í 12.
Þetta kemur fram í tölfræði ríkislögreglustjóra. Í henni kemur fram að fjöldi innbrota hafi verið 2,457 fyrstu átta mánuði ársins. Það jafngildir 300 innbrotum á mánuði eða um 10 brotum á dag. Aukning innbrota á milli ára nemur hátt í 30%, af því er þar kemur fram. Tíðar fréttir af innbrotum hafa verið í fjölmiðlum undanfarið en þjófagengi hafa farið ránshendi um höfuðborgina.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum hefur dregið úr þjófnaðarbrotum í umdæmi hennar eftir því sem liðið hefur á árið. Sem dæmi má nefna að í janúar komu 24 þjófnaðarmál inn á borð lögreglunnar á Suðurnesjum samanborið við fimm mál í ágúst síðastliðnum og átta í júlí.