Þjófarnir voru ekki lengi í Paradís
Þeir voru ekki lengi í Paradís, innbrotsþjófarnir, sem brutust inn í húsnæði á Suðurnesjum um helgina, frekar en títt er um þá sem stunda slíkt athæfi. Þeir brutust inn í verkstæði og stálu með ærinni fyrirhöfn nýjum dekkjum, ásamt felgum, undan jeppa sem verið var að gera upp, að verðmæti um 500 þúsund krónur. Tjakki og topplyklasetti höfðu þeir stolið úr nærliggjandi húsnæði. Að auki höfðu þeir á brott með sér tvö málverk úr húsnæði listmálara, við hlið verkstæðisins. Þýfið földu þeir í gömlum dæluskúr.
Athugull íbúi í umdæminu sem rakst á dekkin og málverkin í gærdag þóttist fullviss um að þarna væri ekki allt með felldu. Hann gerði því lögreglunni á Suðurnesjum viðvart og kom hún mununum í réttar hendur. Málið er í rannsókn.