Þjófar stálu birkiplöntum áttræðrar konu
Fátt fær orðið frið fyrir bíræfnum þjófum. Verðmæti eins og tölvur, flatsjónvörp, GPS- tæki og raftæki alls konar hafa hingað til verið það sem þjófar ásælast mest en nú er svo komið að meira að segja plöntur eru ekki óhultar lengur. Jafnvel þó þær hafi verið gróðursettar.
Þetta upplifði Marel Sigurðsson í Reykjanesbæ sem um árabil hefur verið með í „flag í fóstri“ eins og hann orðar það, á svæði innan við Ósabotna. Á hverju vori og hausti hefur hann sett þar niður afklippur en þetta áhugamál byrjaði fyrir mörgum árum þegar hann var starfsmaður varnarliðsins og svæðið tilheyrði gamla varnarsvæðinu. Þá var hugmyndin sú að gera þetta að útivistarsvæði en þótt af þeim áformum yrði ekki hélt Marel áfram að gróðursetja og hugsa um svæðið.
Að sögn Marels keypti öldruð móðir hans 134 ilmbjarkir í vor sem hún vildi að hann gróðursetti á svæðinu í tilefni af áttræðisafmæli hennar í næsta mánuði. Gamla konan hefur ávallt haft áhuga á plöntum og gróðri. Marel varð við óskum móður sinnar og gróðursetti plönturnar um miðjan júlí.
Þegar Marel kom að svæðinu mánuði seinna mætti honum sláandi sjón. Búið var að stela ríflega 90 plöntum af þeim 134 sem gróðursettar voru. Marel segir móður sína afar vonsvikna með þennan verknað. „Það er von hennar að fólk sjái að sér og planti birkiplöntunum aftur, en ef ekki þá er hún tilbúin til að kaupa áburðarpoka og skilja eftir á svæðinu til að plöntur hennar þrífist á nýja staðnum,“ sagði Marel í samtali við VF.