Þjófar gripnir með mjúkan ránsfeng
Þrír menn sem farið höfðu ránshendi á Vallarheiði að næturlagi voru stöðvaðir af lögreglu í gærnótt. Í innbrotsleiðangri sínum höfðu mennirnar haft á brott með sér fimm rúmdýnur og annað lauslegt úr einni blokkinni. Til að flytja ránsfenginn stálu þeir svo kerru á svipuðum slóðum. Þeir voru handteknir og viðurkenndu sakir sínar við yfirheyrslu. Ekki fylgir sögunni hvort þeir fengu næturgistingu á beddum í fangageymslum í stað ljúfs nætursvefns á mjúkum rúmdýnum.