Þjófagengi handsamað
Tveir piltar voru handteknir í síðustu viku þar sem þeir voru staðnir að því að reyna að stela bifreið í Njarðvík. Í kjölfar handtökunnar upplýstust fjölmörg mál sem rannsóknarlögreglan í Keflavík hefur haft til meðferðar.
Þegar farið var að yfirheyra drengina og fleiri aðila sem tengjast málunum, kom í ljós að þeir höfðu verið viðloðandi fjóra bílstulda, nokkur innbrot og þjófnaði og a.m.k. þrjú íkveikjumál. Málið er mjög viðamikið því það teygir anga sína til Stór-Reykjavíkursvæðisins. Enn er eftir að yfirheyra nokkra aðila sem taldir eru tengjast þessum málum á einn eða annan hátt. Rannsóknarlögreglan í Keflavík stjórnar rannsókninni en er í samstarfi við lögregluna í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík.