Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þjálfunarbúðir Ríkislögreglustjóra flytja til Suðurnesja
Föstudagur 15. maí 2009 kl. 09:28

Þjálfunarbúðir Ríkislögreglustjóra flytja til Suðurnesja


Þjálfunarbúðir íslensku lögreglunnar sem áður voru í Saltvík á Kjalarnesi verða fluttar inn á öryggissvæði Varnarmálastofnunar Íslands á Keflavíkurflugvelli. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Ellisif Tinna Víðisdóttir forstjóri Varnarmálastofnunar Íslands undirrituðu samkomulag þess efnis síðdegis í gær.

Ríkislögreglustjóri mun koma upp þjálfunarbúðum fyrir lögreglumenn á svokölluðu vestursvæði flugvallarins, þar sem sprengjuheldu þotuflugskýlin eru m.a. staðsett. Á næstu dögum verður hafist handa við að flytja búnað lögreglunnar á staðinn.

Vestursvæði Keflavíkurflugvallar heyrir undir Varnarmálastofnun Íslands og þar hafa erlendar flugsveitir einnig aðsetur fyrir sinn búnað þegar þær eru í loftrýmisgæslu við Ísland.

Haraldur Johannessen lýsti mikilli ánægju með þá ákvörðun að flytja þjálfunarbúðirnar til Suðurnesja. Staðsetningin sé góð. Aðstaðan sé öll innan öryggissvæðis Keflavíkurflugvallar og fjarri mannabyggð. Þegar lögreglan hafi verið í Saltvík á Kjalarnesi voru eingöngu 300 metrar í næsta íbúðarhúsnæði.

Meðal þeirra sem munu nýta þjálfunarbúðirnar eru Lögregluskólinn og einnig sérsveit Ríkislögreglustjóra.

Með samningnum á milli Varnarmálastofnunar Íslands og Ríkislögreglustjóra er verið að efla starf lögreglunnar á svæðinu. Á svæði Varnarmálastofnunar eru nú Ríkislögreglustjóri, sprengjusveit Landhelgisgæslunnar og alþjóðabjörgunarsveit Slysasvarnafélagsins Landsbjargar. Þá er sóttvarnalæknir með aðstöðu á svæðinu.



Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi í gær þegar samningar voru undirritaðir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

.