Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þingsályktunartillaga um vöktun áhrifa af álvers- og virkjunarframkvæmdum
Sunnudagur 22. febrúar 2009 kl. 10:00

Þingsályktunartillaga um vöktun áhrifa af álvers- og virkjunarframkvæmdum



Tillaga til þingsályktunar um vöktun samfélagslegra áhrifa álvers- og virkjunarframkvæmda á Reykjanesi.var lögð fram á Alþingi nú fyrir helgi.

Flutningsmenn hennar eru Björk Guðjónsdóttir, Kjartan Ólafsson, Árni M. Mathiesen, Árni Johnsen, Grétar Mar Jónsson, Helga Sigrún Harðardóttir, Eygló Harðardóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í henni er lagt til að Alþingi samþykki að fela Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, í samvinnu við Háskóla íslands að fylgjast með samfélagsbreytingum og þróun byggðar og atvinnulífs á því landsvæði þar sem áhrifa álvers- og virkjunarframkvæmda á Reykjanesi muni gæta mest.

Verkefninu verði ætlað fé á fjárlögum í sex ár frá og með árinu 2010. Keilir skili formlegum skýrslum til ráðherra byggðamála í lok árs 2011 og 2013 og síðan í lok verkefnisins. Þá verði Keilir stjórnvöldum til ráðuneytis á tímabilinu verði þess óskað. Einnig verði ráðherra byggðamála falið að vinna að því að Norðurál, sem hyggst reisa álver í Helguvík, og HS orka, sem mun þurfa að ráðast í umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir vegna álversins, komi að þessu verkefni bæði með fjárhagslegum stuðningi við verkefnið og samvinnu varðandi upplýsingar og gagnaöflun eins og þurfa þykir.

Í greinargerð með tillögunni segir:

„Bygging álvers og virkjunarframkvæmdir á Reykjanesi, svo og starfsemi álversins, munu hafa mikil áhrif á samfélags-, byggða- og atvinnuþróun. Hversu mikil eða víðtæk þau áhrif verða er ekki vitað. Verkefnið mun hafa einhver áhrif um allt land, nokkur þjóðhagsleg áhrif, annars konar og meiri áhrif á helstu áhrifasvæðum en mest verða þau væntanlega á suðvesturhluta landsins. Þessum framkvæmdum er ætlað að styrkja stoðir atvinnulífs á Reykjanesi og jafnvel víðar. En hver áhrifin verða og hversu víðtæk er ekki vitað með vissu.
Við undirbúning og byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði voru unnar viðamiklar skýrslur um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif framkvæmdanna á Austurlandi. Ekki hafa verið unnar skýrslur um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á Reykjanesi á samfélagið þar og á nærliggjandi svæðum. Nauðsynlegt er að mati flytjenda þingsályktunartillögu þessarar að vakta áhrif verkefnisins, m.a. á eftirfarandi þætti:


a. Efnahag og möguleika fólks til að afla sér tekna,
b. vinnumarkað,
c. mannfjölda og búsetuþróun,
d. starfsemi sveitarfélaga og þjónustu þeirra,
e. húsnæðismál,
f. almenna þjónustu,
g. opinbera þjónustu,
h. nýtingu lands og auðlinda,
i. ferðaþjónustu,
j. félagsgerð og lífsstíl fólks.


Ljóst er að bygging álvers í Helguvík mun hafa veruleg áhrif á samfélagið á Reykjanesi og á byggða- og atvinnuþróun langt út fyrir svæðið. Nauðsynlegt er að stjórnvöld fylgist með, rannsaki áhrifin og nýti rannsóknina m.a. til skynsamlegra inngripa með mótvægisaðgerðum ef það er talið nauðsynlegt. Fylgjast þarf með afdrifum mannfólksins, rétt eins og náttúrunnar, við framkvæmdir sem þessar.
Samfélagið á Reykjanesi er að mörgu leyti frábrugðið öðrum samfélögum á landinu. Reyknesingar bjuggu við það í áratugi að í nágrenni þeirra var bandarískt samfélag varnarliðsmanna og fjölskyldna þeirra. Vissulega hafði þessi sambúð til svo margra ára áhrif á allt samfélagið. Samskipti Reyknesinga við bandarískar fjölskyldur voru alla tíð þónokkrur og margir stofnuðu til vináttu við bandarískar fjölskyldur sem jafnvel halda enn þrátt fyrir að varnarliðið sé nú horfið á brott. Varnarliðið var mjög stór vinnustaður og auðvelt var fyrir Reyknesinga að komast í góð og vel launuð störf án mikillar menntunar. Dæmi eru um fólk sem starfaði hjá Varnarliðinu allan sinn starfsaldur. Þegar Varnarliðið fór hurfu með því um 900 störf og atvinnuleysi á Suðurnesjum varð það langmesta á landinu. Kjölfestuatvinnurekandi hvarf af svæðinu. Ekki hefur tekist að skapa jafnmörg störf á svæðinu að nýju. En með byggingu álvers mun störfum aftur fjölga á Reykjanesi. Samhliða rannsókn á áhrifum byggingar álvers og virkjanaframkvæmda á hagi fólks á Reykjanesi er eðlilegt að skoða einnig þau áhrif sem brotthvarf varnarliðsins hafði á búsetu- og atvinnumál á svæðinu.
Afar mikilvægt er að safna upplýsingum jafnóðum og framkvæmdir eru í gangi. Í mörgum tilfellum er ógerlegt eða til muna erfiðara að nálgast upplýsingar eftir á. Því er mikilvægt að stjórnvöld feli Keili í samstarfi við Háskóla Íslands hið fyrsta að hefja slíka rannsókn."