Þingmenn vilja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja
Tillögu um að höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar verði fluttar til Suðurnesja var vísað til Allsherjarnefndar Alþingis í síðustu viku, en í tillögunni er gert ráð fyrir að Dómsmálaráðherra skoði kosti þess og galla að flytja höfuðstöðvarnar til Suðurnesja. Flutningsmenn tillögunnar eru Hjálmar Árnason Framsóknarflokki, Jón Gunnarsson og Brynja Magnúsdóttir Samfylkingu, Drífa Hjartardóttir Sjálfstæðisflokki og Grétar Mar Jónsson Frjálslyndum, en Árni Ragnar Árnason er upphafsmaður tillögunnar. Við umræður á Alþingi sagði Hjálmar Árnason að það væri sannfæring flutningsmanna tillögunnar að niðurstaða af úttekt dómsmálaráðherra um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja yrði jákvæð þegar horft væri til öryggis, reksturs og byggðapólitískra sjónarmiða.
Jón Gunnarsson þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sagði við umræðurnar að hann vonaðist til að málið fengi skjóta afgreiðslu hjá Allsherjarnefnd og að ýtt yrði á eftir málinu svo það kæmist fljótlega til annarrar umræðu á Alþingi.