Þingmaður og svarið er...
Ragnheiður Elín Árnadóttir situr fyrir svörum
Suðurnesjamenn hafa aldrei áður átt eins marga fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Af þingmönnum Suðurkjördæmis eru sjö búsettir á Suðurnesjum og þá er einn þeirra jafnframt með ráðherraembætti. Í vetur ætlum við hjá Víkurfréttum að fylgjast vel með störfum þingmanna okkar og spyrja þá reglulega út í málefni sem tengjast Suðurnesjum á einn eða annan hátt. Við viljum einnig gefa lesendum kost á að senda inn spurningar sem við vinnum úr og berum undir þingmenn svæðisins. Spurningar má senda á póstinn [email protected].
Að þessu sinni situr Ragnheiður Elín Árnadóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra úr Sjálfstæðisflokki fyrir svörum.
Íbúðalánasjóður er eigandi stórs hluta þeirra eigna sem seldar hafa verið nauðungarsölu og nú á sjóðurinn 881 íbúð á Suðurnesjum og eru einungis 294 þeirra í útleigu. Það standa 391 íbúðarhæfar eignir í eigu sjóðsins auðar á Suðurnesjum þegar eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Er núverandi ríkisstjórn að vinna að lausn í þessu máli?
„Já, það er verið að vinna að lausn þessara mála á vettvangi félags- og húsnæðismálaráðherra og ég vænti niðurstöðu úr þeirri vinnu fljótlega. Þetta er óviðunandi staða – það gengur ekki að svo margar íbúðir standi tómar um árabil og tel ég þó svo að það sé ekki hlutverk Íbúðalánasjóðs að leigja út íbúðir, þá sé það einfaldlega nauðsynlegt á svæðum eins og hér þar sem mjög óvenjulegt ástand ríkir. Ég hef upplýsingar um það að það sé stefnt að því að í lok nóvember verði allar leiguhæfar eignir Íbúðalánasjóðs í útleigu í Reykjanesbæ. Þá hef ég jafnframt upplýsingar um að um 150 eignir sjóðsins á Suðurnesjum séu á söluskrá og að um 100 eignum verði bætt við á allra næstu vikum. Það er afar mikilvægt að á þessu verði fundin lausn þar sem það er algerlega ótækt að horfa upp á verðmæti rýrna með þessum hætti eins og þessar íbúðir sem drabbast niður. “
Hver er að þínu mati framtíð HSS. Á þjónusta í auknum mæli að færast til höfuðborgarinnar eða finnst þér mikilvægt að nýta þá aðstöðu sem hér er til staðar?
„Ég tel nauðsynlegt að grunnþjónusta á sviði heilbrigðismála sé aðgengileg og í sem mestu nágrenni við þá sem þurfa á þjónustunni að halda. Ég leyfi mér einnig að efast um að það sé raunverulegur sparnaður fólginn í því á endanum að færa heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarinnar eins og tilhneiging hefur verið á undanförnum árum. Ég vil því að aðstaðan á Suðurnesjum sé nýtt áfram eins og kostur er og lít í raun svo á að það sé allt eins í myndinni að íbúar höfuðborgarsvæðisins geti hugsanlega nýtt sér þjónustu hjá HSS. Ég tel einnig einboðið að kannað verði af alvöru hvort möguleikar séu til þess að leigja út skurðstofurnar til einkaaðila eins og til stóð á sínum tíma, bæði til að skapa tekjur og skjóta traustari stoðum undir stofnunina.“
Stefnir þú að því að beita þér fyrir einhverjum sérstökum málum sem snúa að Suðurnesjum?
„Mér er auðvitað mjög umhugað um Suðurnesin, hér er ég búsett og hér slær hjartað. Ég mun leggja mestu áhersluna á atvinnumálin þegar að þessu svæði kemur og er að vinna hörðum höndum að því að greiða úr þeim málum. Hér eru fjölmörg sóknarfæri og fjöldi aðila sem eru að banka upp á með spennandi hugmyndir. Ég vil sjá þær komast í framkvæmd og verða að veruleika. Ég fagna hverju skrefi í atvinnuuppbyggingu á svæðinu – nýjar fréttir af fyrirhuguðum framkvæmdum við Bláa lónið glöddu mig mikið, framkvæmdir við Stolt Sea Farm og framkvæmdir við flugstöðina svo einhver dæmi séu nefnd. Svona þurfum við að halda áfram – ég nefni Auðlindagarðinn og þá fjölmörgu möguleika sem skapast af vinnslu og nýtingu á jarðhitanum á Reykjanesi. Þá skapar Helguvíkursvæðið og höfnin þar mikla möguleika til atvinnuuppbyggingar á mörgum sviðum sem verið er að vinna að. Svo þarf engum að koma á óvart að ég nefni álver í Helguvík – en það mál er enn í kortunum og eftir fjölda funda með þeim sem koma að því verkefni er ég sannfærð um að áhugi er enn til staðar til að verkefnið komist áfram. Við förum vonandi að sjá til lands með það og önnur verkefni á næstu mánuðum.“