Þingmaður hvetur viðskiptavini til að fylgjast með hluthafafundi VÍS
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar í Suðurkjördæmi, fjallar á Facebook-síðu sinni um fyrirhugaða 5 milljarða arðgreiðslu tryggingafélagsins VÍS til eigenda sinna. Þar vísar hún til yfirlýsingar frá stjórn VÍS þess efnis að fyrirtækið muni hér eftir sem hingað til veita viðskiptavinum sínum eins góð kjör og þjónustu sem kostur er á hverjum tíma.
„Samt ætlar félagið að greiða út 5 milljarða króna arð til eigenda sinna vegna óvænts arðs sem kemur vegna reikningsskilaaðferða á bótasjóðnum sem viðskiptavinirnir hafa greitt inn í. Það eru bæði réttlátir og siðlegir viðskiptahættir að láta viðskiptavinina njóta hluta arðsins í formi lægri gjalda við slíkar aðstæður. Ég vona að viðskiptavinir VÍS gleymi þessu seint og fylgist með niðurstöðum hluthafafundar. Ég mun sannarlega fylgjast með mínu tryggingafélagi og leita annarra leiða ef ákvörðun um arðgreiðslur verður ekki breytt. Við skulum ekki láta mótmæli síðustu daga leysast upp í pirring sem gleymist alveg fram að næsta óréttlæti,“ segir þingmaðurinn í pistli á Facebook-síðu sinni.
Fundurinn verður haldinn 17. mars næstkomandi.