Þingkonur fylltu framsóknarhúsið
Tvær nýjar þingkonur komust óvænt á þing fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi nú á dögunum. Þetta eru þær Helga Sigrún Harðardóttir úr Njarðvík og Eygló Harðardóttir frá Vestmannaeyjum.
Þær fylltu félagsheimili Framsóknarmanna í Reykjanesbæ í dag þegar þær mættu þangað til fundar við framsóknarmenn á Suðurnesjum um þau málefni sem heitust eru í þinginu þessa dagana.
Þessir nýju þingmenn kjördæmisins fengu gott veganesti á fundinum í dag og var ljóst að framsóknarfólk á Suðurnesjum bindur miklar vonir við nýja fulltrúa sína á þingi eftir óvænt brotthvarf Guðna Ágústssonar formanns Framsóknarflokksins og Bjarna Harðarsonar.
Á fundinum kom fram að stjórnmálaáhugi væri að glæðast og mun fleiri væru t.a.m. að sækja fundi og stórnmálastarf hjá Framsóknarflokknum en áður. Fjölsóttur fundur framsóknarfólks með þingkonunum í morgun væri til marks um það.
Ljósmyndari Víkurfrétta smellti meðfylgjandi mynd af þingkonunum eftir fundinn í dag. Á myndinni eru Eygló Harðardóttir til vistri og Helga Sigrún Harðardóttir til hægri.
Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson