Þetta var einn af möguleikunum sem voru ræddir hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins
„Þegar Vinstri grænir gáfu út á landsfundi sínum að ekki yrði staðið við stjórnarsáttmálann sem var gerður í apríl, var stjórnarsamstarfinu sjálfhætt,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ásmundur er klár í slaginn í komandi kosningum og gefur kost á sér.
Ásmundur sat fund með öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á föstudaginn og því komu tíðindin honum ekki í opna skjöldu.
„Það voru þrír möguleikar ræddir og þetta var einn þeirra. Formaður flokksins hafði umboð til að taka þá ákvörðun sem hann taldi besta og þetta varð niðurstaðan. Þetta þarf ekki að koma á óvart, það má segja að Vinstri grænir hafi tekið þessa ákvörðun fyrir okkur með því að gefa út á landsfundi sínum að ekki yrði staðið við þann samning sem var gerður í apríl. Stjórnarsáttmálinn var endurnýjaður í apríl og þar voru flokkarnir sammála um að klára ákveðin mál en ef einn flokkurinn beygir af þeirri leið er þessu sjálfhætt.“
Ungur og ferskur og gefur kost á sér áfram
„Ég er ungur og ferskur, hef fengið mikinn stuðning Sjálfstæðisfólks að undanförnu og mun því gefa kost á mér áfram. Þar sem tíminn er knappur verður ekki hægt að fara í prófkjör og munum við tilkynna í vikunni hvernig við munum raða á listana hjá okkur. M.v. skoðanakannanir að undanförnu er ljóst að sjálfstæðisfólk var ekki ánægt með okkur í þessu stjórnarsamstarfi og því var þetta í raun það eina í stöðunni hjá okkur, ég kvíði ekki komandi kosningum og hlakka til baráttunnar,“ sagði Ásmundur.