Þetta köllum við sumarfrí!
– bæjarstjórnin ætlar ekki að mæta aftur fyrr en 7. september
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs er komin í sumarfrí en bæjarstjórnin hélt sinn síðasta fund þann 1. júní sl. Bæjarstjórnin kemur aftur saman þann 7. september eða eftir þrjá mánuði.
Með tilvísun í 8. gr. samþykktar um stjórn Sveitarfélagsins Garðs, samþykkti bæjarstjórn á síðasta fundi sínum að að veita bæjarráði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála meðan sumarleyfi bæjarstjórnar
stendur yfir, frá 1. júní til 7. september 2016.
Næsti fundur bæjarstjórnar verður miðvikudaginn 7. september 2016. Til að setja það í eitthvað samhengi þá verða grunnskólarnir búnir að starfa í rúman hálfan mánuð í haust þegar bæjarstjórnin mætir aftur, íbúar Reykjanesbæjar hafa haldið sína Ljósanótt og það verður komið kolsvartamyrkur kl. 22 á kvöldin. Svo verða örugglega bara nokkrar vikur í kosningar til Alþingis.