Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Þetta eru svik við okkur“
Sunnudagur 2. febrúar 2014 kl. 13:23

„Þetta eru svik við okkur“

Þingmaður og svarið er - Ásmundur Friðriksson

Suðurnesjamenn hafa aldrei áður átt eins marga fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Af þingmönnum Suðurkjördæmis eru sjö búsettir á Suðurnesjum og þá er einn þeirra jafnframt með ráðherraembætti. Í vetur ætlum við hjá Víkurfréttum að fylgjast vel með störfum þingmanna okkar og spyrja þá reglulega út í málefni sem tengjast Suðurnesjum á einn eða annan hátt. Við viljum einnig gefa lesendum kost á að senda inn spurningar sem við vinnum úr og berum undir þingmenn svæðisins. Spurningar má senda á [email protected]

Að þessu sinni situr Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks fyrir svörum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað finnst þér um mögulega háhraðalestar á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur? Hvaða áhrif mun hún hugsanlega hafa á svæðið?

Þetta er stórskemmtileg hugmynd og allra góðra gjalda verð. Ég þekki vel til í samgöngumálum á Suðurnesjum. Hef unnið við skipulagningu þeirra óslitið frá árinu 2007. Hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum er ríkur vilji til að reka öflugar héraðssamgöngur og ekki síður hefur verið unnið markvisst að þéttu áætlunarneti til höfuðborgarinnar. Í því sambandi hefur „flugrútan“ verið hluti af samgöngukerfinu. Í allri vinnu við eflingu samgangna hefur hugmyndin um farþegalest skotið upp kollinum. Framsýnir menn og konur hafa komið fram með tillögur um farþegalest og síðast var góður maður, Runólfur Ágústsson, með þessa hugmynd og komin nokkuð langt með hana.

Það verða litlar framfarir í samfélaginu ef við lítum ekki til framtíðar og skoðum hvernig við getum náð betri árangri og aukið þjónustuna við íbúa og fjölda ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll. Án þess að hafa kafað í málið eða kynnt mér rekstrargrundvöll farþegalestar er ljóst að kostnaðurinn er mikill. Ég hef heyrt um og séð hugmyndir um lagningu teina (brautar) Frá Keflavíkurflugvelli að Straumi og þaðan fari lestin í stokk og göng inn í Reykjavík. Það væri ótrúlegt fyrir okkur Suðurnesjamenn að komast til höfuðborgarinnar á 15-20 mín og geta hoppað upp í strætó og vera komin til vinnu á 30-35 mín. En enn er kostnaðurinn að koma upp í hugann. Í hugmyndavinnu um samgöngur hefur komið fram að lágmarksfjöldi þjóðarinnar verði að vera um 500.000 manns til að kostnaðurinn verði verjanlegur. Það hefur þó aldrei mér vitandi verið reiknaður allur sparnaður og þjóðhagslegur „arður“ af slíkri framkvæmd. Hvað sparast mikið í kostnaði við bílaflotann, eldsneyti og rekstur bifreiða. Færri slys og styttri tími í ferðalög eru líka verðmæti sem þarf að skoða. Ég er auðvitað spenntur fyrir hugmyndinni en þá kemur að því hver vill borga. Geti menn reiknað arðsemi af slíkri framkvæmd opnast ýmsir möguleikar. Það þarf öfluga aðila sem hafa fjármagn til að undirbúa og gera rekstrar- og kostnaðaráætlanir fyrir slíka lest. Þeir eru til, spurning um áhuga eða þor?

Ég er hugsi um framtíð samgangna á Suðurnesjum. Sú góða vinna sem sveitarstjórnarmenn og SSS hafa lagt í uppbyggingu almenningssamgangna á svæðinu, og hefur vakið athygli annarra héraðssambanda, er nú í uppnámi. Samningur sem Vegagerðin gerði við SSS og er til 7 ára hefur nú verið brotinn og svikinn af Vegagerðinni og Innanríkisráðuneytinu. Hryggjarstykkið í samgöngumálum á Suðurnesjum, „auðlindin“ okkar flugrútan, hefur verið af okkur tekin. Með bréfi 19. desember sl. tilkynnti Vegagerðin SSS að hún hafi ákveðið að flugrútan verði ekki lengur hluti af samgönguneti Suðurnesja og þar muni ríkja frjáls samkeppni. Þetta eru svik við okkur og setur öll framtíðaráform SSS í uppnám. Þessi ákvörðun setur líka almenningssamgöngur í landinu í uppnám. Ég sem hélt að ráðherrann ætti að halda áfram að hlúa að því góða starfi sem sveitarfélögin um allt land hafa gert með uppbyggingu almenningssamgangna er nú ráðist gegn hagsmunum almennings. Á meðan svo er mun draumur um bættar almenningssamgöngur ekki fá byr undir báða vængi og draumar um lest týnast í þokunni.