Þenslan við Þorbjörn byrjaði rólega en er hraðari núna
Vísindaráð almannavarna hélt fund þriðjudaginn 17. maí 2022. Tilefni fundarins var aukin skjálftavirkni á Reykjanesskaga og hreyfingar sem mælst hafa á svæðinu. Sunnudaginn 15. maí lýsti Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, yfir óvissustigi almannavarna og á mánudag færði Veðurstofa Íslands fluglitakóðann fyrir eldstöðvakerfi Reykjaness/Svartsengis á gult.
Samkvæmt GPS mælaneti á Reykjanesskaganum og InSAR gervihnattamyndum mælast færslur á yfirborði jarðar sem benda til kvikusöfnunar með miðju skammt norðvestan Þorbjarnar. Þenslan byrjaði rólega um mánaðarmótin apríl/maí en er hraðari núna. Líkanagerð af færslunum bendir til að kvika safnist fyrir á 4-5 km dýpi og er að myndast innskot (silla) en það gerðist einnig þrisvar sinnum árið 2020. Umfang og staðsetning kvikusöfnunarinnar núna er mjög áþekk því sem var 2020 og veldur kvikusöfnunin umtalsverðri jarðskjálftavirkni.
Jarðskjálftavirkni hefur verið yfir meðallagi á Reykjanesskaga og hafa mælst yfir 3800 skjálftar á svæðinu við Þorbjörn (frá Eldvörpum í vestri að Stóra Skógfelli í austri) undanfarna viku. Frá 15. maí hafa mælst 17 skjálftar yfir 3 af stærð og tveir yfir 4 af stærð. Stærsti skjálftinn var af stærðinni 4,3 og varð kl. 17:38 þann 15. maí. Mesta skjálftavirknin er á 4-6 km dýpri. Jarðskjálftavirkni hefur verið veruleg undanfarið og stærsti skjálftinn varð í Þrengslunum 14. maí af stærð 4,8.
Í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli var vakin athygli á því að skjálfti uppá 6,5 gæti orðið í Brennisteinsfjöllum sem hefði veruleg áhrif á Höfuðborgarsvæðinu. Sú hætta er enn fyrir hendi. Líklegt er að slíkum skjálfta myndi fylgja grjóthrun í bröttum hlíðum og hugsanlega minniháttar skemmdir á innanstokksmunum í allt að 25 km fjarlægð frá upptökunum. Almennt getur skjálftavirkni verið hrinukennd á meðan kvika er að safnast saman í jarðskorpunni vegna þrýstings frá kvikusöfnun.
Vísindafólk mun meta hvort mælanet á þessu svæði sé ásættanlegt og koma með tillögur að úrbótum ef þurfa þykir. Mjög vel er fylgst með öllum hreyfingum á svæðinu og boðað verður aftur til fundar ef breyting verður á atburðarrásinni.