Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þemavika Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 15. febrúar 2007 kl. 15:28

Þemavika Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er aðili að samstarfsverkefni skóla í Evrópu. Verkefnið, sem er Comenius verkefni innan Sókratesáætlunar Evrópusambandsins, er þríþætt og nær til þriggja ára. Samstarfsskólar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í verkefninu eru Morpeth-grunnskólinn í London og British Council School í Madrid. Skólinn lítur á það sem mikinn heiður og viðurkenningu að vera fyrsti tónlistarskólinn sem hlýtur náð fyrir augum Evrópusambandsins og Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins til Sókratesverkefnis.  Á þessu fyrsta ári verkefnisins eru skólarnir í samstarfi við einn virtasta tónlistarháskóla heims, Guildhall School of Music and Drama í London, sem leggur til verkefnisins enn frekari faglega þekkingu og kennara. Verkefni fyrsta árs er tvíþætt og hefur fyrri hlutinn nú þegar verið framkvæmdur. Það var í London dagana 6. til 9. febrúar, þar sem 4 nemendur, 2 kennarar og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans tóku þátt. Seinni hlutinn fer fram í öllum löndunum þremur og framkvæmir hver þátttökuskóli þann hluta með sínum hætti.  Tónlistarskóli Reykjanesbæjar framkvæmir seinni hlutann með því að tengja verkefnið hinni árlegu Þemaviku dagana 19. til 23. febrúar n.k.  Þemað sem er „Skapandi tónlistarmiðlun“, verður með þeim hætti að allir nemendur grunnskólanna í Reykjanesbæ, í 3. til 10. bekk sem eru nemendur Tónlistarskólans, munu taka þátt.  Afraksturinn Þemavikunnar verður svo fluttur á sérstökum tónleikum á Degi tónlistarskólanna, laugardaginn 24. febrúar n.k. Með þeim tónleikum lýkur skólinn fyrsta hluta þessa þriggja ára Sókratesverkefnis. Auk kennara Tónlistarskólans, mun kennari frá Guildhall School of Music and Drama ásamt nokkrum tónlistarkennaranemum við þann háskóla vinna að verkefninu í Þemavikunni. Kennaranemarnir fá þá vinnu metna sem æfingakennslu í kennaranámi sínu.  Tónleikar Þemavikunnar í „Skapandi tónlistarmiðlun“, verða í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur á Degi tónlistarskólanna, laugardaginn 24. febrúar og hefjast kl.15.30. Tónleikarnir verða um 45 mínútna langir, allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024