Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þekktustu rithöfundar landsins mæta á Bókakonfekt í Reykjanesbæ
Jón og Jóga Gnarr, Jón Kalman og Hallgrímur Helgason lesa fyrir gesti úr bókum sínum.
Þriðjudagur 21. nóvember 2017 kl. 10:15

Þekktustu rithöfundar landsins mæta á Bókakonfekt í Reykjanesbæ

Hallgrímur Helgason, Jón Kalman Stefánsson og hjónin Jón og Jóga Gnarr mæta á hið árlega Bókakonfekt Bókasafns Reykjanesbæjar, sem haldið verður fimmtudagskvöldið 30. nóvember næstkomandi kl. 20, en þau munu öll lesa upp úr nýjum bókum sínum.

Barnakór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar kemur fram í upphafi dagskrár undir stjórn Birtu Rósar Sigurjónsdóttur við undirleik Jónínu Einarsdóttur, en kórinn mun syngja nokkur hugljúf lög fyrir gesti áður en rithöfundar lesa upp úr bókum sínum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hallgrímur Helgason les úr nýjustu bók sinni sem er ljóðabók en hún ber heitið „Fiskur af himni“. Í ljóðabókinni segir frá ári í lífi skáldsins og fjallar meðal annars um atburði í lífi hans og fjölskyldu hans á árstímabili.

Jón Kalman Stefánsson les úr nýjustu bók sinni en hún heitir „Saga Ástu“. Sagan fjallar um ást í ólíkum myndum, íslenska sveit, skáldskap og menntunarþrá.

Þá koma hjónin Jón Gnarr og Jóga Gnarr og lesa úr bókinni „Þúsund kossar“. Jón skrifaði söguna um og með konu sinni Jógu en sagan fjallar um erfiða lífsreynslu hennar þegar hún fór utan sem au pair ung kona.

Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Boðið verður upp á kaffi og konfekt en aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.