Þekkir þú Salvadore Massore?
Ítölsk hjón sem stödd eru í Reykjanesbæ um þessar mundir óska eftir aðstoð Suðurnesjamanna. Þannig er mál með vexti að afi mannsins bjó í Keflavík á árunum 1953-1960 en hann lést hér á landi og er grafinn í Fossvogskirkjugarði. Hann hefur komið hingað þegar hann var um fimmtugt en hann var 58 ára þegar hann lést eftir því sem kemur fram í þjóðskrá. Maðurinn hét Salvadore Massore og eftir því sem næst verður komist bjó hann við, eða tengdist Hafnargötu 79.
Einnig er talið að hann hafi starfað við klukkuviðgerðir, eftir því sem kemur fram í bréfi sem maðurinn sendi syni sínum árið 1958 en þá sendi hann peninga til þess sonur hans gæti heimsótt hann á Íslandi. Fátt er annars vitað um manninn og óskar fjölskyldan eftir aðstoð þeirra sem kunna að hafa upplýsingar um manninn.
Ef þú hefur einhverjar upplýsingar má hafa samband við Ólöfu í síma 8987925, eða á skrifstofu Víkurfrétta í síma 4210000.