Þekkingarsetur að veruleika
Þekkingarsetur má finna víða um landið en megin markmið þeirra er að stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna, fræðastarfs og atvinnuþróunar. Jafnframt að þróa námsleiðir og námskeið á háskólastigi í samstarfi við háskóla og aðrar menntastofnanir, sem og önnur þekkingarsetur.
Í apríl síðastliðnum fengum við Suðurnesjamenn okkar eigið þekkingarsetur þegar Þekkingarsetur Suðurnesja var stofnað. Það tók formlega til starfa nú á haustmánuðum að Garðvegi 1 í Sandgerði. Setrið starfar á þekkingargrunni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, Náttúrustofu Reykjaness, Botndýrastöðvarinnar og Fræðaseturs Sandgerðisbæjar, sem nú hefur sameinast Þekkingarsetrinu. Áherslusvið setursins er náttúrufræði og tengdar greinar.
Í vikunni undirritaði Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, samning ráðuneytisins við Þekkingarsetur Suðurnesja að viðstöddu fjölmenni í húsnæði setursins. Nýtt merki setursins var afhjúpað við tilefnið.
Nánar verður fjallað um Þekkingarsetrið í næsta tölublaði Víkurfrétta.