Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

The Amazing Race á Suðurnesjum: Ljósmyndara VF vísað af tökustað
Mánudagur 16. ágúst 2004 kl. 11:06

The Amazing Race á Suðurnesjum: Ljósmyndara VF vísað af tökustað

Hinn heimsfrægi raunveruleikaþáttur The Amazing Race er nú staddur á Íslandi við upptökur á sjöttu seríunni sem frumsýnd verður í Bandaríkjunum þann 25. september næstkomandi.

Víkurfréttir höfðu spurnir að því að mikil fellihýsaborg væri við Svartsengi rétt hjá Bláa Lóninu í gærkveldi og fóru blaðamenn og ljósmyndari á staðinn til að kanna hvað væri í gangi. Þar voru bandarískir menn að störfum með allskonar tæknibúnað og þegar þeir voru spurðir hvað væri í gangi sögðu þeir að ekkert væri hægt að segja um það þar sem þeir höfðu skrifað undir þagnareið til þriggja ára.

Íslendingum gert að þegja í þrjú ár!

Á þessum tímapunkti vissu Víkurfréttir ekki að þarna var um að ræða starfsfólk The Amazing Race en lögðu síðan saman tvo og tvo þegar fréttir bárust af keppendunum í Reykjavík og voru þá menn vissir um að þarna voru upptökur á seríunni í gangi.

Við nánari grennslan kom í ljós að keppendur í The Amazing Race áttu að enda í hrauninu bakvið Bláa Lónið en síðustu keppendurnir voru komnir um  23:00 í gærkveldi. Keppendurnir keyrðu um á glænýjum Landcruiser bifreiðum sem allir voru merktir með einkennisfána þáttanna í framrúðunni. Mikil leynd er um upptökur á þessum þætti og heimildir Víkurfrétta herma að íslenskt fólk sem aðstoðar bandaríska þáttagerðamenn hafi verið svarnir þagnareiði til þriggja ára.

Í nótt fór ljósmyndari Víkurfrétta á stjá við tökustað og sá þegar síðasta viðtalið var tekið við tvo keppendur sem voru karlmenn. Í slíkum viðtölum er oftast rætt við hópanna um hvernig dagurinn hefði gengið. Mikil leynd var yfir viðtalinu en ljósmyndaranum var vísað frá eftir að hafa reynt að taka myndir af þeim.

Ljósmyndari Víkurfrétta fór huldu höfði

Ljósmyndari Víkurfrétta mætti síðan aftur á tökustað við Svartsengi um klukkan 05:00 í morgun og fór þá huldu höfði í hrauninu nálægt tökustað og byrjunarstað þeirra liða sem taka þátt í keppninni. Náðust þá myndir af einum hóp sem var ungur karlmaður og ung kona. Þau virtust eitthvað áttavillt í hrauninu því það tók þau rúmar 20 mínútur að rata frá hitaveitunni í Svartsengi út á Grindavíkurveg.

Í fyrstu var haldið að þau myndu leggja af stað upp á flugvöll og færu þaðan með vél Icelandic Express til annaðhvort London eða Kaupmannahafnar en svo varð raunin ekki.

Allir keppendurnir óku út Grindavíkurveginn og í átt að Reykjavík nema einn hópur keppenda sem villtist til Reykjanesbæjar. Engar sögur fara af því hvort þeir keppendur hafi fundið sinn áfangastað. Svo virðist sem að Ísland sé erfiður staður til að ferðast á þegar maður er í tímaþröng. Einn hópur keppenda var að drífa sig svo mikið að þeir gleymdu heilum poka af Kellogg’s heilsustöngum við byrjunarstaðinn.

Erfitt að komast frá Íslandi

Með hverjum tveggja manna hóp fylgja tveir upptökumenn, einn í framsæti og annar í aftursæti. Heimildir Víkurfrétta herma að 5 lið hafi mætt á klakann en aðeins 4 lið halda áfram. Það voru tólf lið sem byrjuðu svo að Ísland er einn af seinni viðkomustöðum þáttaraðarinnar.

Ekki er þó vitað hvar keppnin endar í kvöld en eitt er þó umhugsunarvert. Miðað við síðustu 5 seríur hafa keppendur keppst við að vera fyrstir með allar þrautirnar og fyrstir með lest eða flugvél úr landi. Á Íslandi hitta þau hinsvegar á vegg í þessum efnum þar sem ekki er stöðugt flæði flugvéla á hina og þessa staði eins og gengur og gerist annarsstaðar í heiminum.

Þess vegna skiptir það í raun og veru engu máli hvort að keppendur mæti 4 tímum fyrir flug eða hálftíma fyrir flug því allir enda á því að fljúga með sömu flugvél nema þeir villist í sólarhring í hrauninu við Svartsengi.

VF-myndirnar: Atli Már Gylfason 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024