Þau bjóða sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ vegna sveitarstjórnarkosninga í vor fer fram á laugardaginn. Prófkjörið fer fram í Stapanum og er kjörstaður opinn frá klukkan 10-18. Alls bjóða 13 frambjóða 13 frambjóðendur sig fram í prófkjörinu. Kjósa skal 7 frambjóðendur. Víkurfréttum hafa borist tilkynningar um framboð frá eftirtöldum einstaklingum.
Árni Sigfússon, 1. Sæti
Árni Sigfússon bæjarstjóri gefur kost á sér áfram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
" Þegar þú velur 7 nöfn ert þú að taka þátt í að velja úrvalið í heimaliðið, þau sem standa í stafni og berjast fyrir þig næstu fjögur ár. Við erum tvímælalaust sterkari saman karlar og konur, yngri og eldri með ólík sjónarmið og reynslu. Samstaðan hefur einkennt okkur og hún má ekki bresta. Ég hvet þig til að spyrja okkur grundvallarspurninga um árangur: Eru börnin okkar að ná betri námsárangri? Eru þau lífsglöð og ánægð? Njóta þau öflugs íþróttastarfs? Eru aldraðir að njóta betri lífskjara með betri heimaþjónustu, félagsstarfi og hjúkrunarþjónustu? Er bæjarsjóður að styrkjast eftir langvinnt atvinnuleysi frá því herinn fór og mikla byggingu innviða? Er rekstur bæjarins með því hagkvæmasta sem býðst í sveitarfélögum? Er umhverfi okkar öruggara og snyrtilegra? Erum við að styðja þá sem minna mega sín? Eru menningin og umhverfið að bæta lífsgæðin? Er menntatækifærum að fjölga? Er fjölbreytni starfa að aukast og eru þau störf betur launuð? Hefur forystan skipt máli til að ná þessum árangri? Ég býð mig áfram til að leiða og treysti á stuðning þinn."
Gunnar Þórarinsson, 1-2. sæti
Gunnar Þórarinsson gefur kost á sér í 1.-2. sæti í prófkjörinu. Helstu áherslur hans eru þessar: Treysta rekstrargrundvöll Reykjanesbæjar með markvissri hagræðingu og aukinni atvinnuuppbyggingu. Ráða ópólitískan bæjarstjóra sem er fagmaður í rekstri og einbeitir sér að því að koma fjármálum bæjarfélagsins í lag. Skapa íbúum Reykjanesbæjar skilyrði til vel launaðra starfa hjá traustum fyrirtækjum. Standa vörð um velferð, menntun og íþrótta- æskulýðsstarf.
Eflum atvinnu, auðgum mannlíf.
Böðvar Jónsson, 2. sæti
Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri og forseti bæjarstjórnar gefur kost á sér í 2.sætið á lista Sjálfstæðisflokksins. Böðvar er stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri. Böðvar hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, var 9 ár formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og hefur síðustu 3 ár verið forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Auk þess hefur Böðvar gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Reykjanesbæ og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Böðvar er formaður stjórnar HS Veitna og Dvalarheimila Aldraðra Suðurnesjum.
„Ég er spenntur og fullur tilhlökkunar að takast á við ný verkefni sem bíða bæjarstjórnar á næsta kjörtímabili þar sem Reykjanesbær mun uppskera í mörgum málum sem hafa verið í undirbúningi á síðustu árum. Ég bið um stuðning kjósenda í 2.sætið og vil vinna áfram að því að gera Reykjanesbæ að enn betra samfélagi.“
Magnea Guðmundsdóttir, 3. sæti
Magnea Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi og upplýsingafulltrúi Bláa Lónsins, býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2014.
Magnea hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 2010 og var áður varabæjarfulltrúi. Hún er formaður umhverfis- og skipulagsráðs og á sæti í bæjarráði.
„Ég er bjartsýn á framtíð Reykjanesbæjar og vil leggja mitt af mörkum til að gera bæinn okkar enn öflugri. Umhverfis- og ferðamál eiga mikla samleið þar sem jákvæðar breytingar í umhverfi okkar skipta máli bæði fyrir íbúa og ferðamenn sem sækja okkur heim,“ segir Magnea.
Magnea hefur starfað hjá Bláa Lóninu frá árinu 1998 og tekið þátt í uppbyggingu fyrirtækisins sem í dag er leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu. Hún lauk MA prófi í Almannatengslum frá University of Alabama árið 1995 og BA prófi í sama fagi árið 1994. Magnea lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Baldur Þ. Guðmundsson, 4. sæti
Baldur Þ. Guðmundsson, bæjarfulltrúi og útibússtjóri Sjóvá í Reykjanesbæ, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.
Baldur hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 2010 og er formaður fræðsluráðs auk þess að hafa gegnt stjórnarformennsku í DS á kjörtímabilinu. Hann er giftur Þorbjörgu Guðnadóttir og saman eiga þau 3 börn og eitt barnabarn.
„Á kjörtímabilinu hef ég starfað að mörgum verkefnum sem mig langar að fylgja eftir. Má þar helst nefna fræðslumálin sem eru á góðri siglingu hjá okkur. Við verðum einnig að halda áfram uppbyggingu á Nesvöllum þó hið nýja hjúkrunarheimili sé stórt stökk fram á við í öldrunarþjónustunni. Einnig eru möguleikar okkar í ferðaþjónustunni heilmiklir og er Hljómahöllin mikilvæg viðbót í ferðaflóruna.“
Baldur hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 2010 og árin þar á undan var hann markaðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík. Jafnframt hefur hann sinnt tónlistargyðjunni frá unga aldri og er stjórnarformaður í elstu starfandi hljómplötuútgáfu á Íslandi, Geimsteini. Baldur er viðskiptafræðingur auk þess að vera með kennararéttindi á framhaldsskólastigi.
Einar Þ. Magnússon, 4. sæti
Einar Þ. Magnússon sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 1. mars nk. Eiginkona hans er Bryndís Sævarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Þau eiga synina Sævar Magnús, Unnar Geir og Einar Svein, tvö barnabörn og tvær tilvonandi tengdadætur.
Einar er fæddur og uppalinn í Keflavík. Hann útskrifaðist sem skipstjórnarmaður frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið1984. Eftir það hefur hann starfað sem skipstjóri og rekið útgerðarfyrirtæki. Hann ræktar einnig bláskel hér í Faxaflóa og rekur vinnslu í tengslum við hana auk þess að vera stjórnarmaður í Fiskmarkaði Suðurnesja og Reikningsstofu Fiskmarkaða. Hann hefur verið bæjarfullrúi og formaður atvinnu- og hafnarráðs frá árinu 2010.
„Atvinnumálin eru mitt helsta áherslumál í bæjarstjórn. Fleiri störf, fleiri tækifæri og meiri tekjur eru grundvöllurinn fyrir unga fólkið, fjölskyldurnar og rekstur bæjarins. Efla þarf tengingu svæðisins við ferðaþjónustu og gæta þess að á svæðinu verði fjölbreytt atvinnustarfsemi.
Skóla- og íþróttamál skipta mig líka miklu máli. Við þurfum að hlúa vel að börnunum okkar. Hluti af því er að skapa þeim góðar aðstæður til að stunda íþróttir.Ég vil efla Heilbrigðisstofnunina okkar. Öflug heilbrigðisþjónusta skiptir sköpum fyrir alla bæjarbúa og atvinnulífið.
Ég mun leggja mig allan fram til þess að við getum öðlast fleiri tækifæri og bið þess vegna um stuðning ykkar í 4. sætið.“
Alexander Ragnarsson, 4.-5. sæti
Alexander Ragnarsson sækist eftir 4.-5. sæti. Hann er fæddur 1967, giftur Bylgju Sverrisdóttur og eiga þau 3 börn, Óla Ragnar, Eygló og Veigar Pál.
Alexander er menntaður húsasmíðameistari, er sjálfstætt starfandi og rekur verktakafyrirtækið Arey ehf. Hann hefur starfað að íþrótta- og æskulýðsmálum. Fyrir körfuknattleiksdeild Njarðvíkur í hart nær 20 ár. Sem stjórnarmaður frá árinu 1998-2002. Formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur tímabilið 2000-2001 og formaður unglingaráðs körfuknattleiksdeildar UMFN frá 2007.
Hann var formaður foreldraráðs Grunnskóla Njarðvíkur árin 2006-2008 og verið varamaður í Íþrótta og tómstundaráði síðasta kjörtímabil.
Alexander leggur áherslu á að hlúa vel að innra starfi íþróttafélaganna hér í bæ. Hann hefur starfað lengi í íþróttahreyfingunni og hefur á þeim tíma aflað sér þekkingar og reynslu sem mun nýtast til góðra verka í þágu íþróttahreyfingarinnar.
Í atvinnumálum og áframhaldandi uppbyggingu þá sér hann Reykjanesbæ sem bæjarfélag tækifæranna og vill leggja sitt af mörkum til að okkur takist að nýta þau.
Björk Þorsteinsdóttir, 5. sæti
Björk Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi gefur kost á sér í 5. sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna þann 1. mars 2014.
Björk hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 2010 og sér um skrifstofuhald hjá útgerðarfyrirtækinu Saltver ehf ásamt því að starfa fyrir Útvegsmannafélag Suðurnesja.
Hún er formaður Menningarráðs Reykjanesbæjar og á einnig sæti í Atvinnu- og hafnarráði. Fyrrum formaður og núverandi stjórnarmaður í Menningarráði Suðurnesja og situr í Ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs Sveitarfélaga.
Björk er gift Guðmundi Jens Guðmundssyni útgerðarstjóra og eiga þau tvær dætur, Auði Erlu 14 ára og Sonju Steinu 10 ára.
„Það hefur verið lærdómsríkt og ánægjulegt að starfa með því góða og duglega fagfólki sem vinnur hjá Reykjanesbæ undanfarin 4 ár. Samstaða og einhugur til þess að gera alltaf betur ef kostur er hefur einkennt þá vinnu og árangurinn hefur skilað sér, oft hægt, en oftar örugglega og sjáanlega.“
„Fjölmörg verkefni bæði stór og smá eru í farveginum og er það von mín og einlæg ósk að ég fái brautargengi til þess að starfa áfram að þeim verkefnum. Reykjanesbær hefur mikla möguleika á að verða eitt af sterkari atvinnusvæðunum á landinu og það er bjargföst trú mín að við getum og munum laða að okkur fjölbreytt atvinnutækifæri á komandi árum.“
„Á menningarsviðinu er Hljómahöllin eitt af stóru verkefnunum, en einnig má nefna friðlýsingu og enduruppbyggingu Bryggjuhússins, Fischer´s húss og Gömlu Búðar ásamt áframhaldandi vinnu við markaðssetningu Víkingaheima og Duus húsa í heild sinni sem styður vel við menningartengda ferðaþjónustu.“
„Það er markmið mitt nú eins og áður að ímynd og ásýnd Reykjanesbær verði eftirsóttur búsetukostur fyrir fólk sem velur lífsgæði með fjölskylduhagina í forgrunni ásamt því að láta fordóma hvers lags lönd og leið og temja sér jákvætt og hvetjandi viðhorf öllum til heilla.“
Ísak Ernir Kristinsson, 5.-6. sæti
Ísak Ernir er nýstúdent og sækist eftir 5.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ 1. mars næstkomandi.
,, Ég er nýstúdent og hef undanfarin ár verið virkur í félagsmálum í Reykjanesbæ einkum í gegnum störf mín fyrir Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem ég gengdi formennsku skólaárið 2012 - 2013. Að mínu mati er mjög skynsamlegt að laða ungt fólk til áhrifa við stjórn sveitarfélagsins enda er það í rökréttu samhengi við aldurssamsetningu bæjarbúa.
Hvað varðar atvinnuuppbyggingu sé ég mikil tækifæri hér í bæ sem er ekki síst mikilvægt ungu fólki í leit að farsælli framtíð. Saman getum við þannig byggt upp gott samfélag þar sem allir fá jöfn tækifæri til þess að blómstra, afla sér menntunar og njóta góðrar þjónustu. ”
Jóhann Snorri Sigurbergsson, 5.-6.sæti
Jóhann Snorri biður um stuðning í 5.-6.sætið í prófkjörinu. Jóhann er 36 ára viðskiptafræðingur og starfar sem forstöðumaður Viðskiptaþróunar hjá HS Orku. Hann er í sambúð með Gunnhildi Erlu Vilbergsdóttur og saman eiga þau tvo syni. Jóhann vann lengi við vöruþróun í fjarskipta- og sjónvarpsgeiranum og sem markaðsstjóri SkjásEins. Hann hefur verið varabæjarfulltrúi síðustu 4 ár. Í störfum sínum í gegnum árin og ekki síst síðustu 3 ár hjá HS Orku hefur Jóhann öðlast mikla reynslu og skilning á því hvað þarf til að koma atvinnuverkefnum á koppinn og hvar raunhæfustu möguleikarnir í Reykjanesbæ liggja.
„Sem foreldri tveggja ungra drengja á leik- og grunnskólaaldri vil ég leggja áherslu að halda áfram að byggja upp bæinn og þróa samfélag sem bæjarbúar geti verið stoltir af. Með öflugu menntakerfi, öflugu íþrótta- og tómstundastarfi, líflegum bæjarbrag og fjölbreyttum atvinnutækifærum.
Ég ætla mér að vera öflugur fulltrúi ungra fjölskyldan í bænum og annarra sem deila framtíðarsýn minni á enn betri bæ. Ég óska eftir stuðningi þínum í 5.-6. sæti.“
Guðmundur Pétursson, 5.-7 sæti
Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri sækist eftir 5-7 sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ í prófkjöri þann 1. mars næstkomandi. Guðmundur Pétursson er 63 ára og er lærður húsasmíðameistari síðan 1976. Guðmundur er ekkill og á tvö börn Pétur 41 árs og Sólveig Gígju 21 árs. Guðmundur var formaður Markaðs og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar 1994-1998 og formaður framkvæmda og tækniráðs Reykjanesbæjar 1998-2000. Þá sat hann sem ráðgjafi utanríkisráðuneytisins í vinnuhóp um brotthvarf varnarliðsins, og var í vinnuhóp sem iðnaðarráðuneytið skipaði 2010 um atvinnumál á Suðurnesjum. Hann situr í stjórn Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar fyrir hönd Samtaka Atvinnurekenda á Reykjanesi (S.A.R) en þar hefur hann verið formaður síðan 2011. Guðmundur hefur tekið virkan þátt í trúnaðarstörfum fyrir sjálfstæðisflokkinn, var formaður Sjálfstæðisfélagsins Keflvíkings, hefur setið í stjórn fulltrúaráðsins í fjölmörg ár og núna síðast sem formaður stjórnar fulltrúaráðsins. Hef mikinn áhuga á að koma með reynslu mína af atvinnumálum inn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Það eru spennandi tímar framundan hér á Reykjanesi með alþjóðaflugvöll og Helguvíkina sem grunnstoðir fyrir ný verkefni. Ég vil leggja krafta mína fram í þeirri þróun og óska því eftir stuðningi þínum í 5-7. sætið í prófkjörinu þann 1. mars næstkomandi.
Una Sigurðardóttir, 6.-7. sæti
Una Sigurðardóttir sækist eftir 6. – 7. sæti á lista Sjálfstæðiflokksins í Reykjanesbæ í komandi prófkjöri. Una er með MS og BS próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem sérfræðingur í starfsmannamálum hjá Icelandair. Una er gift Sigurði Haraldssyni sjómanni, þau eiga 4 börn.
„Ég hef mikinn áhuga á að koma að áframhaldandi uppbyggingu og velferð Reykjanesbæjar og vil leggja mitt að mörkum með því að gefa kost á mér í prófkjöri sjálfstæðimanna þann 1. mars nk.,“
Birgitta Jónsdóttir Klasen, 7. sætið
Birgitta Jónsdóttir Klasen sækist eftir stuðningi í 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu 1. mars. Birgitta fluttist hingað til lands fyrir 12 árum frá Þýskalandi, en hún hefur verið viðloðandi og starfandi við stjórnmál í Þýskalandi síðan árið 1978 og hefur áhuga á því að halda áfram á þeirri braut hér á Íslandi og taka þátt í prófkjöri í Reykjanesbæ vegna sveitarstjórnarkosningarnar sem hefst vorið 2014. Birgitta hefur starfað sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði heilsumeðferða „Heilsumiðstöð Birgittu“ við Hafnargötu 48a auk þess sem hún hefur haldið fjölda námskeiða á því sviði.
„Hef mikinn áhuga á að koma með reynslu mína af fjölskyldu-og félagsmálum sem og heilbrigðismálum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Einnig þarf að huga að atvinnumálum fyrir m.a. fyrir þá einstaklinga og fjölskyldufólk sem hefur flutt úr landi í atvinnuleit. Við þurfum að fá þetta fólk aftur til Íslands.“