„Þarf nýja menn sem hafa pung“
Aðalfundur Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, sem haldinn var í lok desember, samþykkti ályktun frá einum félagsmanna sinna, þar sem lýst er yfir vantrausti á Sævar Gunnarsson, formann Sjómannasambands Íslands og honum beri fyrir vikið að segja af sér. Fundinn sátu um 80 manns og var tillagan samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Rétt er að geta þess að SVG er annað eða þriðja stærsta aðildarfélag Sjómannasambandsins. Það er Kvótinn.is sem greinir frá.
Tillagan sem samþykkt var, er svohljóðandi: „Aðalfundur SVG lýsir yfir vantrausti á Sævar Gunnarsson formann SSÍ og samninganefnd SSÍ sem hefur ekkert afrekað á undanförnum 3 árum, sem sjómenn hafa verð samningslausir. Ljóst er að þessir aðilar eru ekki að valda starfi sínu og þarf nýja menn sem hafa pung til að taka á þeim málum. Því ályktar SVG um það að Sævar Gunnarsson segi af sér sem formaður SSÍ og samninganefndin einnig.“
Fundurinn samþykkti einnig ályktum þar sem hörmuð er sú staðreynd að sjómannaafsláttur verði með öllu afnuminn á komandi ári. Hann hefur á undanförum árum verið lækkaður í þrepum og er nú 7.000 krónur að hámarki á mánuði. Taldi fundurinn forystu Sjómannasambandsins í þeim málum ekki hafa staðið sig nægilega vel í því að berjast gegn afnámi afsláttarins og vekja jafnframt athygli á þeirri tekjulækkun sjómanna sem því fylgir.