Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þarf að sporna við mesta atvinnuleysi Íslandssögunnar á Suðurnesjum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 12. nóvember 2020 kl. 11:21

Þarf að sporna við mesta atvinnuleysi Íslandssögunnar á Suðurnesjum

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar sameinaðist í bókun við fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar þar sem m.a. er skorað á Alþingi og ríkisvald að tryggja fjárframlög til framkvæmda á Suðurnesjum.

„Mikil óvissa er uppi í þjóðfélaginu og í heiminum öllum vegna alheimsfaraldursins COVID-19. Mörg fyrirtæki á landinu, í ferðaþjónustu sem og öðrum atvinnugreinum, eiga í miklum rekstrarerfiðleikum þar sem gjaldþrot þeirra blasir jafnvel við. Þessum erfiðleikum fylgir atvinnuleysi og er atvinnuleysi nú á Suðurnesjum með því hæsta sem þekkst hefur í Íslandssögunni. Við þessari þróun þarf að sporna með framkvæmdum sem skapa störf tímabundið og til lengri tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bygging þurrkvíar í Njarðvík

Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur hug á að efla starfsemi sína með byggingu nýrrar þurrkvíar á athafnasvæði sínu við Njarðvíkurhöfn. Sú uppbygging myndi strax skapa á annað hundrað bein og óbein störf og leiða til annarrar uppbyggingar með viðeigandi störfum en til að þessi áform gangi eftir þarf að ráðast í verulegar hafnarframkvæmdir í Njarðvíkurhöfn.

Reykjaneshöfn, sem á og rekur Njarðvíkurhöfn, hefur á undanförnum árum stefnt að endurbótum á hafnaraðstöðunni í Njarðvík, er varðar endurnýjun viðlegukanta, dýpkun og byggingu skjólgarðs. Þær framkvæmdir myndu nýtast vel til að skapa það umhverfi sem til þarf fyrir uppbyggingu Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, auk þess að skapa möguleika á uppbyggingu á annarri hafnsækinni starfsemi á svæðinu.

Viljayfirlýsing undirrituð

Þann 19. ágúst síðastliðinn undirrituðu Reykjanesbær, Reykjaneshöfn og Skipasmíðastöð Njarðvíkur viljayfirlýsingu um samræmt átak til að vinna framangreindum framkvæmdum brautargengi. Reykjaneshöfn og Skipasmíðastöð Njarðvíkur hafa kynnt fyrrnefnd uppbyggingaráform fyrir bæjarráðum allra sveitarfélaga á Suðurnesjum ásamt stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og hafa viðkomandi aðilar lýst yfir stuðningi við áformin sem eru atvinnueflandi fyrir íbúa Suðurnesja.

Fyrrnefndar endurbætur sem Reykjaneshöfn stefnir á í Njarðvíkurhöfn hafa í för með sér miklar framkvæmdir og eru kostnaðarsamar. Heimilt er samkvæmt Hafnalögum nr. 61/2003 að styrkja slíka framkvæmd úr ríkissjóði í gegnum samgönguáætlun en forsenda þess að Reykjaneshöfn geti farið í þessa framkvæmd er að sá stuðningur sé til staðar. Fjárútlát Reykjaneshafnar verða þrátt fyrir það umtalsverð og mun Reykjanesbær styðja Reykjaneshöfn við þá fjármögnun.

Áskorun á ríkisstjórn og Alþingi

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar hér með á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja fjárframlög til ofangreindra hafnarframkvæmda í Njarðvíkurhöfn í samræmi við heimildir í Hafnalögum í gegnum samgönguáætlun eða aðra innviðafjárfestingu svo renna megi fleiri stoðum undir atvinnulífið á Suðurnesjum og skapa ný störf til framtíðar.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (M), Styrmir Gauti Fjeldsted (S) og Jasmina Vajzovic Crnac (Á).