Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þar sem hugur og líkami mætast gerast magnaðar breytingar
Sunnudagur 5. nóvember 2023 kl. 06:00

Þar sem hugur og líkami mætast gerast magnaðar breytingar

Sigríður Rósa Kristjánsdóttir, „Sigga í Perlunni“, gefur út heilsurafbók

„Þar sem heilsa hefur átt hug minn í mörg ár, og ég hef verið að kenna og einkaþjálfa frá því ég átti og rak líkamsræktarstöðina Perluna, þá er þessi rafbók framhald af því sem ég er að gera í dag. Ég bætti við mig fræðum og lærði markþjálfun sem heillaði mig upp úr skónum því fræðin og verkfærin innan markþjálfunar eru frábær viðbót við allt sem tengist heilsu,“ segir Sigríður Rósa Kristjánsdóttir en þessa dagana starfar hún við fjarþjálfun, markþjálfun og skipuleggur heilsuferðir fyrir fólk í sólina á Tenerife.

„Næsta ferð verður til Albir á Spáni 2024. Þar munu hugur og líkami mætast og hlúð að með markþjálfun, hatha yoga, gönguferðum og fleira,“ segir Sigga en hvað kom til að hún ákvað að skrifa rafbók?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þessi rafbók mín er afrakstur mikillar yfirlegu um hvernig ég gæti komið allri minni reynslu niður á blað og miðlað henni til annarra. Bókin raungerðist svo þegar ég flutti til Benidorm fyrr á þessu ári. Þar skapaðist rými til að setjast niður og formfesta alla þá þætti sem bókin tekur til.

Það hefur tekið mig nokkra mánuði að koma þessu frá mér og ég er svo lukkuleg að eiga  mjög góða að sem bæði hvöttu mig áfram, spegluðu, hjálpuðu til við hönnun bókarinnar og sáu um yfirlesturinn.“

Sigríður í sólinni á Tenerife.

Hugurinn aðalverkfærið

Sigga segir að hugurinn sé að hennar mati aðalverkfærið til að búa að góðri heilsu. „Ef hugurinn er ekki nógu sterkur þá gerist ósköp lítið eða ekkert. Því heitir bókin Þar sem hugur og líkami mætast sem er nákvæmlega það sem gerist þegar við tökum heilsuna okkar föstum tökum.

Þessi bók er fyrir öll sem vilja og langar að setja sjálf sig í fyrsta sætið með sína heilsu. Þá meina ég með andlega heilsu, líkamlega heilsu og eigin framtíðarsýn á heilsuna .

Bókin hefst á markþjálfun og lesandinn þarf að vera opinn og tilbúinn í sjálfsvinnu, kafa djúpt inn á við og finna leiðir til að njóta ferðalagsins. Settar eru fram krefjandi en jafnframt skemmtilegar spurningar og verkefni í þeim tilgangi að styrkja einstaklinga og hvetja þá áfram til að bæta eigin heilsu. Sjálfsmynd okkar allra þarf að styrkja og hlúa að til þess að verða sterkari einstaklingar og skapa okkur tækifæri til þess að njóta lífsins í botn.“

Fræðsla um mat og hreyfingu

Sigga segir að í bókinni sé kafli um mat og mörgu honum tengt.

„Í bókinni er  ýmisleg fræðsla um mat, vítamín og matarkúra. Í kaflanum er  hvatning til að borða hollt og verkefni til þess að skoða, ígrunda og finna út hvar stendur þú varðandi mataræði og er markmiðið að koma þér áfram í áttina að hollum eða hollari lífsstíl.

Eins er kafli sem fjallar um hreyfingu og gildi hennar fyrir okkur. Við vitum að hreyfing er okkur mikilvæg og við vitum líka að það er misjafnt hvernig hreyfingu við aðhyllumst og hvernig við viljum rækta líkamann okkar. Eitt er þó sannað að við verðum að styrkja vöðvana okkar til að forðast að verða hokin gamalmenni – öll viljum við án efa geta staðið undir okkur þegar fram líða stundir. Þarna er farið með lesandann í ferðalag í formi verkefna og markþjálfunar til þess að hafa heilsuna með sér í liði.

Í lok bókarinnar deili ég með lesandanum mínu leyndarmáli um hvernig megi bæta heilsuna á mjög einfaldan en góðan hátt. Ég er hokin af reynslu þegar kemur að þessum málum og hef prófað ansi margt á sjálfri mér og vonast ég  til þess að geta leiðbeint öðrum á sinni vegferð með bætta heilsu og aukið sjálfstraust að leiðarljósi,“ segir Sigríður Rósa, heilsumark- og einkaþjálfari, að lokum.

www.siggakr.is
Insta: @sigga.kr
Facebook: /siggakr70
Insta: @heilsumarkthjalfun