Þakplötur losnuðu við Hólabraut
Björgunarsveitarfólk frá Björgunarsveitinni Suðurnes og slökkviliðsmenn frá slökkviliði Brunavarna Suðurnesja hjálpuðust að nú undir kvöld að festa þakplötur sem voru farnar að losna af húsi við Hólabraut í Keflavík.
Járnið losnaði í veðurhamnum sem hefur verið í dag og lét illa þannig að húsráðendur óskuðu eftir aðstoð. Slökkvilið kom á vettvang með körfubíl en erfitt var að staðsetja hann við húsið svo öruggt væri þannig að sóttur var góður stigi til að komast á þakið.
Björgunarsveitarmaður fór upp og festi járnið sem hafði losnað.
Björgunarsveitarfólk í Reykjanesbæ hefur fengið nokkur útköll í dag vegna veðurs. Björgunarsveitarfólkið hefur verið fljótt á staðinn, enda björgunarstöðin í Reykjanesbæ full af fólki sem er að undirbúa flugeldasölu sem opnar á morgun.