Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þakklátur björgunarsveitum
Fimmtudagur 4. júní 2009 kl. 20:49

Þakklátur björgunarsveitum


Karl Einar Óskarsson, hafnsögumaður á lóðsbátnum Auðunni, sem hvolfdi og sökk við björgunarstörf í Sandgerði síðdegis, sagðist við komuna í land að sér væri brugðið. Hann þakkaði einnig guði fyrir að félagi hans, Aðalsteinn Björnsson, hefði bjargast. Aðalsteinn var í stýrishúsi lóðsbátsins þegar honum hvolfdi. Sjálfur var Karl Einar úti á dekki og var strax bjargað í björgunarbát frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Atburðarásin var hröð og lóðsbáturinn Auðunn var kominn á hvolf á örfáum sekúndum eins og sjá má á myndbandi í Sjónvarpi Víkurfrétta hér á vf.is.

Þegar ljóst var að bátnum myndi hvolfa ákvað Karl Einar að reyna að hlaupa upp síðuna þegar báturinn færi á hliðina. Björgunarmenn voru snöggir að ná honum um borð í björgunarbát. Hann kom þeim boðum strax til björgunarmanna að þeir hefðu verið tveir um borð. Félagi Karls, Aðalsteinn Björnsson, var í stýrishúsinu þegar bátnum hvolfdi. Honum skaut ekki upp fyrir en að einni til tveimur mínútum liðnum. Hann hafði þá áhyggjur af því að félaga sínum hafi ekki verið bjargað.

Karl Einar er afar þakklátur björgunarsveitunum fyrir fumlaus og snögg viðbrögð og ljóst að mikil þálfun hafi skilað sér í dag.

Eins og sjá má í myndbandi í Sjónvarpi Víkurfrétta hér á vf.is er það taug milli togarans og lóðsbátsins sem er þess valdandi að lóðsinn fer á hliðina og síðan sekkur. Sjá myndbandið hér!



Á efri myndinni ræðir Karl Einar Óskarsson við sjúkraflutningamenn. Eins og sjá má er Karl Einar blautur upp á brjóstkassa sem sýnir kannski best hversu fljótar björgunarsveitir voru að bjarga honum. Á neðri myndinni er Aðalsteinn Björnsson en hann var í stýrishúsi lóðsbátsins þegar honum hvolfdi.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson