Thai Keflavík býður ókeypis kvöldverð á fimmtudaginn
Eigendur veitingastaðarins Thai Keflavík í Reykjanesbæ hafa ákveðið að bjóða ókeypis máltíð á fimmtudaginn. Magnús Heimisson, einn eigenda staðarins, segir að þetta sé gert til að koma til móts við fólk í því efnahagsástandi sem nú ríkir, því í lok mánaðar sé örugglega farið að þrengja að hjá mörgum.
Magnús og hans fólk hefur verið að sanka að sér fiski, núðlum og hrísgrjónum sem verði í boði á fimmtudaginn milli kl. 17-20. Ætlunun sé að gefa öllum sem koma að borða og bjóða fólki að koma og fá djúpsteiktan fisk og taka með sér heim fyrir sig og fjölskylduna. Þeir sem ekki vilji fisk, fái núðlur.
Magnús sagðist í samtali við Víkurfréttir vonast til að fólk yrði ekki hrætt við að koma og fá djúpsteiktan fisk eða núðlur fyrir fjölskylduna. „Við hugsum þetta fyrir alla, þó svo við vonumst til að þeir sem hafi milljónir á milli handanna leyfi frekar öðrum að njóta,“ segir Magnús og áréttaði að fólk mætti þó ekki taka þessu eins og „súpueldhúsi fyrir fátæka“. Hér væri bara um að ræða skemmtilegt framtak veitingastaðarins að láta gott af sér leiða. Thai Keflavík hafi fengið góðar viðtökur fólks og þetta sé ein af leim leiðum sem veitingastaðurinn hafi til að láta gott af sér leiða út í samfélagið.
Magnús segir að margt þurfa að koma til svo hægt sé að gera svona nokkuð en nú séu flestir til í að leggja hönd á plóg. Þannig hafi Thai Keflavík fengið fiskinn á hagstæðum kjörum. Eins og fyrr segir verður ókeypis fiskur og núðlur í boði á fimmtudag milli kl. 17-20 eða á meðan birgðir endast á þeim tíma. Magnús geri ráð fyrir að geta tekið á móti fjölda fólks og fólki sé frjálst að setjast inn á veitingastaðinn og borða eða taka matinn með heim til fjölskyldunnar.
Mynd: Magnús Heimisson á Thai Keflavík með djúpsteiktan fisk. Veitingastaðurinn ætlar að bjóða upp á ókeypis kvöldverð nk. fimmtudagskvöld. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson