„Það verður allt vitlaust á morgun“
-segir Bjarni Pétursson fulltrúi hlaðmanna hjá IGS á Keflavíkurflugvelli um deilu hlaðmanna og yfirmanna IGS.
Hlaðmenn á Keflavíkurflugvelli hafa mótmælt harðlega breyttu vinnufyrirkomulagi sem boðað hefur verið af yfirmönnum dótturfélags Flugleiða, Icelandic Ground Service, en fyrirtækið er eitt þriggja sem sér um hleðslu á Keflavíkurflugvelli. Hlaðmenn hittust á fundi í gærkvöldi þar sem þeir mótmæltu harðlega hugmyndum um breytt vinnufyrirkomulag þar sem gert er ráð fyrir að þeir verði færðir milli deilda eftir álagi. Á fundinn í gærkvöldi mættu 53 starfsmenn, en alls eru stöðugildin í Hlaðdeild IGS 76 talsins.
Bjarni Pétursson er fulltrúi hlaðmanna og segir hann að mikil samstaða sé milli hlaðmanna og mikil óánægja með hið breytta vinnufyrirkomulag. „Það er breið samstaða allra starfsmanna í hlaðdeild um að mæta ekki í aukavinnu, en við lítum á þær hugmyndir sem yfirmenn IGS hafa sett fram að það sé verið að bæta á okkur vinnu sem við fáum ekki greitt fyrir,“ segir Bjarni en hann telur yfirmenn fyrirtækisins vera hrædda við þá miklu samstöðu sem náðst hefur meðal hlaðmanna um málið. „Við vorum kallaðir til fundar í morgun og við fengum skýr skilaboð frá yfirmönnum um að þessu yrði haldið til streitu. Þeir spurðu okkur að því hvort við yrðum sáttir ef þeir myndu taka pökkun á heyrnartólum sem notuð eru í vélum Flugleiða út af borðinu. Okkar skilaboð voru mjög skýr. Við munum hvorki pakka heyrnartólum, vinna í tækjadeild eða fraktdeild, við erum hlaðmenn. Í okkar huga eru þessar hugmyndir löglegar, en siðlausar.“
Bjarni segir að engin aukavinna verði unnin í dag. „Það verður allt vitlaust á morgun því það er ekki áhugi á meðal starfsmanna um að vinna aukavinnu meðan ástandið er eins og það er.“
Í kvöld munu fulltrúar og trúnaðarmenn deilda innan IGS hittast í húsakynnum Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis þar sem rætt verður um stöðu mála. Á fundinn munu m.a. mæta fulltrúar úr flugeldhúsi, fraktdeild og hlaðdeild IGS.