Það vantar framtíðarsýn og lausnir til lengri tíma
- Helga Dís Jakobsdóttir, oddviti Raddar unga fólksins í Grindavík
Kosið er til bæjarstjórnar í Grindavík á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í Grindavík.
Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?
Stærstu kosningarmálin í Grindavík fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar eru nokkur. Daggæslu og leikskóla málin brenna mikið á fólki þar sem þessi þjónusta annar ekki eftirspurn. Málefni eldri borgara, þar má nefna húsnæði og félagsaðstaða sem er ábótavant. Einnig er löngu orðið tímabært að ákveða framtíð Kvikunnar og er ánægjulegt að sjá það mál á stefnuskrá allra flokka. Það sem einkennir samt öll mál er að það vantar framtíðarsýn og gera lausnir til lengri tíma í stað skemmri og það er eitthvað sem brennir hvað mest á fólki, alveg sama hvaða málaflokk er verið að tala um.
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?
Okkar helstu málefni hjá Rödd unga fólksins eru að vekja áhuga hjá ungu fólki á sveitarstjórnarmálum og að nýta kosningarréttin sinn. Kosningaþátttaka ungs fólks hefur ekki verið nógu góð seinustu kosningar og viljum við því búa til vettvang til þess að vekja áhuga ungs fólks á málefnum bæjarins óháð stjórnmálaskoðunum. Þjónustumiðuð stjórnsýsla og framtíðarsýn er það sem við leggjum mikla áherslu á í öllum málaflokkum. Okkar skoðun er sú að daggæslumálin eigi að leysa með ungbarnadeildum við báða núverandi leikskóla. Þessar deildir eiga að taka inn börn 12 mánaða, það þarf því að hefja stækkun við leikskólann Krók sem fyrst svo að þetta geti orðið að veruleika. Opið bókhald og grípa tækifærin í ferðaþjónustunni með því að efla Kvikuna sem upplýsingarmiðstöð og menningarhús þar sem saga Grindavíkur fær að njóta sín ásamt núverandi sýningu um saltfiskinn.