Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Það er eitthvað fyrir alla á 18. Ljósanótt
Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 30. ágúst 2017 kl. 10:05

Það er eitthvað fyrir alla á 18. Ljósanótt

- Gengur alltaf betur hjá okkur með hverju árinu sem líður

Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar segir að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á Ljósanótt í ár. Dagskráin er fjölbreytt og mikið af viðburðum á sviði lista og menninga og margir nýir listamenn koma fram í ár.

„Þetta gengur alltaf betur og betur hjá okkur með hverju árinu sem líður en við erum með mikið af föstum viðburðum sem við vitum af og eru á hverju ári þannig að við getum byrjað að skipuleggja strax næstu Ljósanótt þegar einni er lokið. Síðan koma inn fleiri ný og flott atriði og svo koma jafnvel inn gömul atriði eða viðburðir í nýjum búning, svo að átjánda Ljósanóttin verður alveg dúndur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árgangagangan er alltaf fremst í mínu hjarta og eflaust líka í hjörtum margra gamalla íbúa sem hitta gamla félaga sem þeir hafa ekki séð lengi. Nettó ætlar að vera með nýjung í tenglsum við gönguna, svokallaða matarsóunarsúpu sem verður í boði áður en gangan hefst. Síðan eru það þrír hópar fólksins í bænum, þeir sem standa að heimatónleikunum, aðstandendur Með blik í auga sem verða með sýninguna Með SOUL í auga og svo er það menningarhópurinn í Höfnum sem er rosalega skemmtilegt framtak“. Valgerður segir einnig að þó svo að það séu skipulagðir heimatónleikar á föstudagskvöldinu þá séu líka komnir inn margir viðburðir á heimasíðu Ljósanætur, sem sé alveg frábært.

„Sýningarnar okkar í DUUS eru alltaf skemmtilegar því þar erum við með heimafólk í fyrirrúmi. Aðalsýningin okkar er í raun og veru tímabær en þar er Helgi Hjaltalín Eyjólfsson listamaður sem býr í Höfnunum, hann hefur sýnt mjög víða og er gríðarlega flottur, hann er að velta fyrir sér hverjar horfurnar séu í þessum heimi sem við búum í. Sýningin hans heitir Horfur og hann veltir því fyrir sér hver staða hans sem fjölskylduföður er í öllum breytingunum sem eiga sér stað. Ég hvet alla til þess að koma og kíkja á þessa sýningu. Svo er það hún Fríða Dís sem er með sýningu sem heitir próf/tests, ég vil ekki segja of mikið frá þeirri sýningu en hún er afar áhugaverð. Svo er samstarf Sossu og skáldsins Antons Helga, þar verður mikið dularfullt að gerast og er varla að ég geti sagt frá henni, hún gæti verið bönnuð innan sextán. Svo er Elísabet Ásberg með silfursýningu. Á laugardeginum verða allir kórarnir með tónleika, Skessan býður upp á lummur og það er í raun og veru endalaust af viðburðum hjá okkur“.

Öflug menningar- og skemmtiveisla
„Ljósanótt er sér á parti með bæjarhátíðir því það hefur verið mikil áhersla á menningu á okkar hátíð, fólk dregur fram myndir til að sýna, kemur fram og syngur eða spilar tónlist, það að fólk skuli vera að gera þetta í auknum mæli er náttúrulega alveg stórkostlegt. Auðvitað erum við líka með góða gesti, frægustu stjörnur landsins eru meðal annars að koma fram hjá okkur, við bjóðum flottum gestum heim. Á laugardaginn er Emmsjé Gauti, Jana María Guðmundsdóttir heimakona er að gefa út nýjan disk, KK og Maggi Eiríks koma fram og Valdimar ásamt hljómsveit spilar sína tónlist. Jón Jónsson mun síðan spila fyrir okkur eftir flugedasýninguna“.

Ýmsar breytingar í gegnum árin
Nú er hætt að sleppa blöðrum við setningu Ljósanætur og fornbílar hættir að aka niður Hafnargötuna, ýmsu hefur verið breytt í gegnum árin og margir ósáttir við bann aksturs fornbílanna, hvernig bregðist þið við því?
„Við lifum í breyttum heimi og ef lögreglustjórinn leggur það til við öryggisnefnd að við leggjum niður akstur fornbíla niður Hafnargötuna þá hættum við því. Ljósanæturnefnd tekur ekki á sig þá ábyrgð og eflaust má ræða það fram og til baka hvort þetta sé tímabært eða ekki en við gerum þetta í samráði við öryggisaðilana og við erum að halda þessa hátíð í samráði við lögreglu, björgunarsveitir og brunavarnir og aðra aðila. Við förum eftir því og tökum tillit til þess sem okkur er sagt. Það er eitthvað fyrir alla á hátíðinni og ég vona að eigendur gamalla bíla geti komið án þess að keyra niður Hafnargötuna en þeir eru með stað fyrir bílana sína við DUUS hús og ég veit að það myndu margir sakna þeirra því þetta hefur alltaf set góðan svip á hátíðina.“
Veðurguðirnir verða vonandi hliðhollir
Hvernig verður veðrið, eruð þið búin að ræða við veðurguðina?
„Það hefur einn aðili tekið það að sér að sjá um veðurmálin fyrir okkur og hefur það gengið vel hingað til, Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri stjórnsýslusviðs stóð sig glimrandi vel á síðasta ári og ég treysti því að hann standi sig núna eins og þá,“ segir Valgerður kát.